Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:41:42 (5457)

2001-03-08 16:41:42# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. lenti náttúrlega í dálitlum vandræðum vegna þess að hún fullyrti hér hlut sem ekki er réttur og það er ekki í fyrsta skipti. Og þegar hún lendir í þeim vandræðum, fer hún yfirleitt vítt um völl og það gerði hún núna. Hún ræddi það ekkert hér að bensínstyrkir hafa stórhækkað að undanförnu, margfaldast. Hv. þm. minntist ekkert á það og ég ætlast svo sem ekkert til þess. Ég ætlast svo sem ekkert til að hv. þm. treysti mér, en ég verð að segja það að ég íhuga það oft og mörgum sinnum, og ætla að segja það hér: Hvað hefði gerst ef hv. þm., sem hér talaði áðan, hefði unnið prófkjör fyrir nokkrum árum, þegar hún var í prófkjöri á móti Ólafi Erni Haraldssyni? Ég er oft að hugsa hvað hefði breyst við það. Hvar væri hv. þm. þá og um hvað væri hv. þm. að ræða nú? (Gripið fram í.) Og nú hlær hv. þm. og sést alveg í kirtlana. (Gripið fram í.) En mér finnst svolítið gaman að þessari ... (Gripið fram í: Rosalega er heilbrigðisráðherra með góða sjón.) Já, enda með gleraugu. En ég hef oft íhugað þetta og ég held að hv. þm. hljóti oft að hafa íhugað þetta sjálf.