Mennta- og fjarkennslumiðstöðvar

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 17:28:41 (5466)

2001-03-08 17:28:41# 126. lþ. 85.13 fundur 263. mál: #A mennta- og fjarkennslumiðstöðvar# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um mennta- og fjarkennslustöðvar til að jafna aðstöðu til náms.

Meðflutningsmenn mínir að þessari tillögu eru hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Einar Már Sigurðarson.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi áætlun um uppbyggingu mennta- og fjarkennslumiðstöðva um land allt til að jafna aðstöðu til náms. Markmiðið sé að gera nám á framhaldsskólastigi aðgengilegt fyrir fleiri en nú er, að skapa sem víðast farveg fyrir háskólamenntun og hvers konar sí- og endurmenntun.

Fyrsta áfanga slíkrar áætlunar verði hrundið í framkvæmd þegar á næsta skólaári, 2001--2002. Gert verði ráð fyrir kostnaði við verkefnið í fjárlögum ársins 2001.``

Af lokaorðum tillögunnar er ljóst að hún er samin á haustdögum, áður en menn ganga hér til þess verks að samþykkja fjárlög yfirstandandi árs, en hefur ekki komist til umræðu á Alþingi fyrr en nú.

Tilefni þess að ég ákvað að flytja þessa tillögu má rekja til þáltill. sem ég flutti á 122. þingi. Sú tillaga fjallaði um fjarkennslu til að auka jafnrétti til náms, til að auka á jöfnuð og jafnrétti landsmanna til tiltækra menntunarkosta. Sú tillaga var ekki samþykkt en fékk afskaplega góðar undirtektir.

[17:30]

Ekki hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp eða kynna þá möguleika sem kunna að bjóðast fólki ef rétt væri á málum haldið. En með þessari tillögu er ég að reyna að ná utan um þá möguleika og leggja til og fara yfir hvernig hægt væri ef vilji væri fyrir hendi að byggja upp mennta- og fjarkennslumiðstöðvar, þar sem menn gætu búið þannig að fólkinu í landinu, að hvar svo sem það byggi ætti það, ekki í of mikilli fjarlægð, þess kost að fá stuðning og þá farveg fyrir kennslu, símenntun og menntun af ýmsu tagi.

Fjarkennsla og fjarnám ýmiss konar á framhalds- og háskólastigi hefur þróast mikið á undanförnum árum, einkum fyrir dugnað og framsýni fólks í skólakerfinu. Það verður að segjast eins og er að markviss skipulagning eða framsýni af hálfu menntamálayfirvalda hefur þar ekki spilað stórt, því þar virðast menn hafa litið svo á að best væri að þetta ræki sig sjálft. Menn segja einnig að á Íslandi hafi það verið þannig þegar verið er að tala um hversu mikil þróun hafi orðið í nýtingu netsins, að sú þróun hafi orðið með þeim sérkennilega hætti, sem má þykja merkilegur kapítalismi, að fjárfestar hafa tapað en neytendur hafa grætt vegna þess að fjárfestingar hafa verið miklar, en það er nú óljóst hversu mikið af þeim fjárfestingum kemur til baka. En það æði sem í rauninni hefur geisað hefur auðvitað komið neytendum mjög til góða vegna þeirrar öru þróunar sem kynt hefur verið undir.

En það hefur fengist mikil og dýrmæt reynsla af einmitt fjarkennslu og fjarnámi ýmiss konar, sem framsækin stjórnvöld geta byggt á þegar hugað er að því að auka tækifæri þeirra sem eiga óhægt um vik að afla sér grunn- eða endurmenntunar sökum búsetu, atvinnu eða annarra aðstæðna. Til að auðvelda fólki um land allt að bregðast við breyttum aðstæðum þarf að stórbæta aðgengi þess að menntun. Endurskipuleggja þarf skólakerfið og fjölga tækifærum fólks með því að nýta nýja þekkingu og tækni. Og síðan fullyrði ég hér, herra forseti, að endurskipulagning og fjárfesting í menntun auki samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðamarkaði og bæti lífskjör og mannlíf á Íslandi. Ég fullyrði jafnframt að það sé byggðamál fyrir Ísland og það sé byggðamál á Íslandi. Hér, herra forseti, er ég auðvitað trú hinni svokölluðu mannauðgistefnu, sem byggir á því að menntun í hvaða mynd svo sem hún er komi alltaf til með að nýtast, bæði einstaklingnum og því samfélagi sem hann býr í.

Í fábýli, eða dreifbýli eins og er mjög víða á Íslandi, er ekki unnt að halda úti hefðbundnum framhaldsskóla, hvað þá skapa vettvang fyrir háskólanám eða aðstöðu fyrir nauðsynlega símenntun. Flutningsmenn þessarar tillögu sjá fyrir sér að þessir þættir og aðrir sem lúta að menntun og þekkingu verði, þar sem það á við, sameinaðir í mennta- og fjarkennslumiðstöðvar sem verði farvegur fyrir framhaldsnám og eftir atvikum háskólanám og sí- og endurmenntun. Framhaldsskólar, sem nú þegar eru starfræktir, gætu orðið miðja í slíku starfi, annars staðar gætu símenntunarmiðstöðvar gegnt slíku hlutverki. Miðstöð af þessu tagi hefði frumkvæði að því að afla þekkingar og fá sérmenntað fólk til starfa og tæki þar mið af þörfum íbúanna og atvinnulífsins á viðkomandi svæði. Einkum er mikilvægt að þeir sem minnstrar skólagöngu hafa notið fái tækifæri til frekara náms. En það er sá hópur sem erfiðast er að ná til, það sýna þær kannanir sem gerðar hafa verið á því hverjir sækja sér endurmenntun eða frekari menntun á fullorðinsárum. Aðalatriðið er að mennta- og fjarkennslumiðstöðvar verði víðs vegar á landinu og að litið verði á menntun og kost á henni sem sjálfsagðan og snaran þátt í lífi hvers manns, alla ævina. Reynsla af fjarkennslu á framhalds- og háskólastigi, tilraun með skipulagt fjarkennslunám á framhaldsskólastigi eins og í Grundarfirði, starf símenntunarmiðstöðva um land allt og reynsla af starfsnámi á vegum verkalýðshreyfingarinnar getur allt varðað leiðina að því marki að menntun við hæfi sem flestra verði í boði sem víðast.

Skólarnir í landinu, bæði á framhalds- og háskólastigi, verða sér úti um margvíslega reynslu með því að hafa nemendur í fjarnámi, ýmist með kennslu í námshópum á ákveðnum stöðum eða með einkakennslu. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem hafa stundað framhaldsnám en ekki lokið því og eins þá sem áttu þess ekki kost á sínum tíma að fara í framhaldsskóla. Fjarnám hentar líka þeim sem vilja hefja háskólanám en búa við aðstæður sem leyfa ekki slíkt nema veruleg röskun verði á persónulegum högum, jafnvel búsetu. Margir nemendur í fjarnámi eiga heima á stöðum þar sem fjölbreytt námstækifæri eru í boði, t.d. í kvöldskólum, en kjósa frekar þessa leið vegna sinna persónulegu aðstæðna. Fjarnám virðist þannig vera hentug leið fyrir marga sem geta ekki nýtt sér reglubundið nám, svo sem vegna fjölskylduábyrgðar, vinnutíma eða annars. Fjarnám getur veitt þessu fólki annað tækifæri.

Breytingar á atvinnuháttum kalla á meiri menntun: sérmenntun, endurmenntun og símenntun ýmiss konar sem fólk og fyrirtæki vilja og þurfa að geta nýtt sér. Hinn mikli hagvöxtur undanfarinna ára stafar fyrst og fremst af fjárfestingum og mikilli vinnu. Hið svonefnda nýja hagkerfi hefur verið þar sorglega fjarri og frá 1998 hefur lítil framleiðniaukning orðið í atvinnulífinu. Þar vegur ugglaust þungt sú staðreynd að eftir 1995 fækkar þeim sem sótt hafa sérskóla eða framhaldsskóla á sérsviðum. Skortur á viðeigandi menntunartækifærum á ákveðnum sviðum er því, herra forseti, að verða efnahagsvandamál.

Viðurkennt er að menntun og þekking séu þau vopn sem munu duga best í lífsbaráttu einstaklinga og samfélaga á þeirri öld sem við nú erum að hefja. Sjómenn hafa t.d. nýtt sér kosti fjarnámsins og rætt hefur verið um að þróa skipulegt fjarnám fyrir þá í sjávarútvegs- og skipstjórnarfræðum. Möguleikar á því að nýta fjarkennslu við endur- og símenntun eru nær ótæmandi. Þeir nýtast hins vegar ekki sem skyldi verði fjarkennslan ekki skipulögð, stefnan mörkuð, samstarfsaðilar og eðlilegir farvegir fundnir og framboð kynnt. Sífellt fleiri átta sig á því að nám þarf ekki að stunda í tilteknu húsi.

Margoft hefur komið fram að miklu ræður um búsetuval fólks að ungmenni eigi þess kost að njóta góðrar menntunar á framhaldsskólastigi. Á stöðum þar sem ekki hefur verið talið hægt að bjóða upp á framhaldsskólanám er ekki óalgengt að fjölskyldur hugsi til búferlaflutninga þegar börn komast á unglingsár, bæði til að halda fjölskyldunni lengur saman og vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir því að senda ungling að heiman og þurfa e.t.v. að halda tvö heimili. Eins ræður líka miklu um þróun atvinnulífs um land allt hvernig staðið er að menntamálum. Til að takast á við atvinnuháttabreytingar þarf fólk að eiga þess kost að mennta sig til nýrra starfa. Skipulag menntamála er því eitt mikilvægasta byggðamálið. --- Og ég ætla að endurtaka þetta, herra forseti: Skipulag menntamála er því eitt mikilvægasta byggðamálið. Fjarkennsla hefur þróast ört hjá skólum úti á landi og í þjónustu við fólk á landsbyggðinni. Það er ekki tilviljun heldur sýnir fram á hve mikilvæg tölvusamskiptatæknin er fyrir dreifbýlið. Með markvissri notkun þeirrar tækni má jafna og bæta möguleika fólks til menntunar, til að njóta menningar og til að efla atvinnulíf.

Með þessari tillögu, herra forseti, auk þess sem bent er á færar leiðir til að efla menntunarkosti fólks um land allt, er verið að ýta á eftir því að menntamálayfirvöld taki frumkvæði við skipulagningu nýrra menntunarleiða um land allt. Það væri í fullu samræmi við 9. lið stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999. En ef ég gríp niður í II. kafla, herra forseti, til þess að mönnum sé ljóst hvað þar er átt við, þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, ... Jafnframt verði bætt skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar. ... Komið verði á samstarfi atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni um endur- og símenntun og stuðlað að því að allir eigi tækifæri á að afla sér nýrrar þekkingar, meðal annars í samræmi við breytingar í atvinnuháttum. Möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir.

Menntun á háskólastigi verði tekin upp þar sem kostur er, meðal annars með samningum milli framhalds- og háskóla.``

Herra forseti. Eins og ég gat um er þessi tillaga flutt ekki hvað síst til þess að ýta á eftir því að menntamálayfirvöld fari að eigin samþykktum, þ.e. fari að þeirri samþykkt sem hér liggur fyrir í byggðamálum, í stefnu þar sem menn ætla sér væntanlega að vera búnir að ljúka ákveðnum hlutum fyrir árslok ársins í ár, því hún gildir út þetta ár. Ég ætla að lesa fyrri málsgrein tillögutextans aftur svo menn heyri hversu vel þetta fellur saman, tillögutextinn annars vegar og hins vegar það sem segir í ályktun um byggðamál, en málsgreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi áætlun um uppbyggingu mennta- og fjarkennslumiðstöðva um land allt til að jafna aðstöðu til náms. Markmiðið sé að gera nám á framhaldsskólastigi aðgengilegt fyrir fleiri en nú er, að skapa sem víðast farveg fyrir háskólamenntun og hvers konar sí- og endurmenntun.``

Herra forseti. Með tillögunni er verið að ýta á eftir því að menntamálayfirvöld láti athafnir tala, sýni viljann í verki. Þetta hljómar afskaplega vel í byggðaáætluninni, en það nægir ekki fólki víða um landið. Menn þurfa að sjá þessa möguleika heima hjá sér. Það þarf að gera mönnum ljóst hvernig hægt er að framkvæma þessa stefnu. Það þarf að efna til samstarfs, vinna upp áætlanir og kynningar. Og gera þarf fólki ljóst að því stendur menntun til boða.

Eins og ég gat um áðan er það svo að þeir sem minnsta hafa menntunina eru síst líklegir til þess að leita sér menntunar eða endurmenntunar, en þar er mikilvægast að koma slíkum möguleikum á framfæri. Við flutningsmenn tillögunnar erum með þessu að leggja fram okkar skerf til þess að ýta á eftir því að farið verði í þessa vinnu. Við bendum hér á færar leiðir. Við bendum á þá reynslu sem fyrir hendi er hjá einstökum skólum. Við vitum og þekkjum þá möguleika sem fyrir hendi eru og okkur er það ljóst að þetta er hægt á undraskömmum tíma ef pólitískur vilji er fyrir hendi.