Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 17:56:12 (5469)

2001-03-08 17:56:12# 126. lþ. 85.14 fundur 266. mál: #A rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys. Tillagan er á þskj. 294 og er 266. mál þingsins. Tillagan er nú flutt í annað sinn og svo til óbreytt en ýmislegt hefur gerst síðan hún var flutt fyrir ári síðan. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að við nýframkvæmdir samkvæmt vegáætlun verði gert ráð fyrir rásum fyrir búfénað undir vegi þar sem girt er meðfram vegum en bithagar beggja vegna. Jafnframt verði hafin vinna við gerð slíkra rása undir vegi þar sem umferð er þung og bithagar eru nytjaðir beggja vegna vegar.``

Í grg. eru listar frá árinu 1994--1998 um fjölda slysa og þau flokkuð eftir því hvort þar hafi orðið mikil eða lítil slys eða óhöpp án slysa. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa á tímabilinu frá 1992--1999, þ.e. á tímabili sem nær lengra aftur en þessi skrá sýnir, verið skráð um 700 tilfelli þar sem ökutæki og búfé rákust saman. Þar af urðu slys á fólki í 34 tilfellum og eitt banaslys. Fjárhagslegt tjón af þessum slysum er mikið þó að líkamlegt tjón og andlegt sé enn meira og ekki hægt að meta til fjár.

Frá því þessi tillaga var flutt hér fyrir ári síðan hefur nefnd sem hæstv. landbrh. skipaði árið 1998 skilað skýrslu um málið, reyndar sl. mánudag. Í skýrslu nefndarinnar, sem ber heitið ,,Þjóðvegir og búfé``, kemur margt fram sem styrkir þessa þáltill.

Eftir tveggja ára vinnu nefndarinnar, sem er ekki sú fyrsta sem hefur verið skipuð til þess að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr slysum vegna lausagöngu búfjár, er fyrsta aðgerðin sem hún leggur til að girða meðfram öllum helstu vegum. Menn eru sammála um að vegir séu flokkaðir og girt meðfram vegunum.

Með leyfi herra forseta vil ég fá að lesa hér stuttlega upp úr Morgunblaðinu frá þriðjudeginum 6. mars. Þar er vitnað í blaðamannafund sem haldin var vegna útkomu skýrslunnar:

,,Helstu tillögur nefndarinnar eru þær að fjölfarnir vegir víða um land verði friðaðir með samfelldum og sérstökum varnargirðingum. Lagt er til að búfé fjarri vegum verði í sérstökum beitarhólfum þannig að það gangi ekki í vegsvæðum. Getur þetta átt við þar sem búfé hefur fækkað mikið, t.d. í landnámi Ingólfs.

Þar sem vegir verða ekki friðaðir, og ökumenn geta átt von á að fénaður sé í lausagöngu, einkum í strjálbýli, er lagt til að koma upp sérstökum umferðarmerkjum sem gefa til kynna að búfé gangi þar laust og gæta þurfi sérstakrar varúðar. Leggja á vegrásir, eða undirgöng, á ákveðnum stöðum til að auðvelda umferð búfjár undir vegina.``

Ein tillagan í skýrslunni er sem sagt um vegrásir. Síðan er tekist á um hver eigi að greiða og hverjir eigi að sjá um girðingarnar og aðrar aðgerðir sem grípa á til.

Ég vil leggja á það áherslu, herra forseti, að þegar í dag eru af því mikil vandræði hjá mjög mörgum bændum víða um land, þá aðallega við þjóðveg 1, að koma búfénaði, sérstaklega kúm, í bithaga. Þetta á sér í lagi við þar sem stór kúabú eru rekin. Það getur þurft að reka yfir þjóðveginn fjórum sinnum á dag yfir sumartímann. Þetta geta verið kúabú með yfir 50 kýr og af þessu er auðvitað mikið óhagræði fyrir bóndann og slysahætta en víðast hvar er hægt að koma við rásum fyrir kýrnar. Það mundi draga úr sysahættu og gera búskapinn auðveldari en er í dag. Þetta er bara lítið dæmi. Þetta á auðvitað um sauðfjárbúskap líka og gildir um landsbyggðina alla.

Um þetta eru engar reglur. Engar reglur segja til um að það eigi að setja þessar rásir við nýframkvæmdir eða miða við einhverja ákveðna umferð. Það eru heldur engar reglur um hver eigi að greiða þessar rásir eða ræsi, ef ræsin eru lögð. Margar beiðnir hafa borist til Vegagerðarinnar sem hefur ekki getað sinnt þeim nema mjög takmarkað þar sem enginn sérstakur fjárlagaliður er eyrnamerktur þessum rásum. Ekki er heldur gert ráð fyrir kostnaði við þær varðandi nýframkvæmdir. Það hefur reynst mesta basl fyrir bændur að fá þessar rásir lagðar þó að slysahætta teljist af rekstri búfjár, ég tala nú ekki um sumartímann þegar reka þarf stóran kúahóp yfir þjóðvegi nokkrum sinnum á dag. Það er ekki lítil umferð á Svalbarðsströndinni. Þar eru stór og myndarleg kúabú og þarf að reka kvölds og morgna yfir veginn.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa langa framsögu um þetta mál. Ég vísa til áðurnefndrar skýrslu sem fengið hefur heitið ,,Þjóðvegir og búfé``. Ég vil leggja áherslu á að þetta verði ein af þeim lausnum sem tekin verði inn í áætlun sem á að verða til þriggja ára. Því miður er hún ekki ofarlega á blaði við forgangsröðun í skýrslunni. Auðvitað kostar þetta sitt, en til lengri tíma litið er þetta hagræðing og sérstaklega væri það mikil slysavörn að koma þessu fyrir. Maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að skepnurnar noti ekki þessar rásir þar sem þeim hefur verið komið upp. Það þarf ekki nema að reka þær einu sinni þar í gegn og þá rása þær undir og óttast ekki framar að nota þessi göng.

Ég ætla, herra forseti, að óska eftir því að þessari þáltill. verði vísað til hæstv. samgn. og óska eftir því að landbn. fái einnig að fjalla um málið.