Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 18:31:28 (5474)

2001-03-08 18:31:28# 126. lþ. 85.17 fundur 292. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins í lok máls míns að víkja að tvennu, annars vegar spurningu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur varðandi það hvort ég vissi hvernig þessi mál standa núna.

Eins og ég gat um í ræðu minni er málið þannig vaxið að nú hefur verið tekin ákvörðun um það af stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna, sem sjómannasamtökin eiga auðvitað aðild að, að fara loksins í mál við ríkisvaldið út af þeim vanefndum sem sjómannasamtökin telja að hafi orðið á þessu máli. Þar af leiðandi má kannski segja að þessi sérstaka krafa um lagfæringu í Lífeyrissjóði sjómanna sé ekki beint uppi á borðunum í kjarasamningum. Hins vegar er alveg rétt eins og hv. þm. gat um að þar eru auðvitað almennar kröfur eins og aðrir launþegar hafa verið að semja um í lífeyrismálum. Kannski má segja að vegna málaferlanna sé þessi þáttur málsins í salti og sjómenn vonast auðvitað til þess að það frv. sem hér er verið að ræða geti e.t.v. leyst hluta af þessu máli eða komið verulega til móts við það.

Hitt atriðið sem mig langar til að víkja að í lok máls míns er svo algjörlega úr fortíðinni. Þetta er fylgiskjal sem ég er með og er frá 6. mars árið 1984, bréf sem skrifað var til þáv. fjmrh., Alberts Guðmundssonar, með leyfi forseta, ef ég má aðeins vitna í það, en þar segir:

,,Með bréfi, dags. 6. desember 1982, vorum við undirritaðir skipaðir í nefnd af Ragnari Arnalds, þáv. fjmrh., til að fjalla um lífeyrismál sjómanna. Nefndin hefur á þremur fundum rætt um það með hvaða hætti Lífeyrissjóður sjómanna geti staðið undir þeim kostnaðarauka sem hlýst af lækkun á ellilífeyrisaldri sjómanna, sem ákveðin var með lögum nr. 47 frá 29. maí 1981. Nefndin hefur einnig rætt um þann vanda sem upp er kominn í öðrum sjóðum sem hafa sjómenn innan borðs sinna vébanda.``

Síðan ætla ég ekki að fara meira í þetta. En hér kemur fram að menn fengu ekki samþykki fulltrúa ríkisins fyrir því að ríkið bæri á þessu sérstaka ábyrgð og það kemur líka fram í bréfinu að atvinnurekendur töldu sig ekki bera beint ábyrgð á þessu enda var um félagsmálapakka að ræða. Þá segir í niðurlagi bréfsins:

,,Með tilliti til framanritaðs er ljóst að frekara starf nefndarinnar skilar ekki árangri á meðan afstaða stjórnvalda er óbreytt. Nefndarmenn leggja áherslu á að Alþingi samþykki breytingarnar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna samhljóða. Það hlýtur því að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að þessi mál verði færð til þess vegar að framkvæmanleg séu. Allur dráttur á málinu er aðeins til þess fallinn að gera það erfiðara úrlausnar.``

Þetta er skrifað árið 1984 beinlínis í framhaldi af þeirri lagasetningu sem færði sjómönnum félagsmálapakkann um 60 ára regluna. Undir þetta skrifuðu Höskuldur Jónsson, fyrir hönd ríkisins, Guðjón Ármann Einarsson, fyrir hönd VSÍ, Hermann Þorsteinsson, fyrir hönd VMS --- Vinnumálasambands samvinnufélaganna, er það ekki? --- Hrafn Magnússon, fyrir SAL-sjóðina, Jóhannes Sigurgeirsson, sem var þá varamaður, tilnefndur af ASÍ, Guðmundur Hallvarðsson, tilnefndur af ASÍ, og Bolli Héðinsson, tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Það er því alveg ljóst að alveg frá upphafi málsins hafa sjómannasamtökin skilið þetta svo að þessi lagasetning hafi verið félagsmálapakki og að henni hefði átt að fylgja einhver fjármögnun.

Rétt er að geta þess í lok málsins að eina fjármögnunin sem komið hefur af hendi ríkisins varðandi þessa 60 ára reglu var á árum áður þegar gengisfellingar voru gerðar. Þá komu stundum einhverjar fjárveitingar af svokölluðum gengismunarsjóði sem settar voru í lífeyrissjóðinn en ég tel að í kröfunni um 1,3 milljarða, sem stjórnin hefur ákveðið að sækja á hendur ríkisins, hafi verið tekið tillit til þeirra greiðslna sem komu úr gengismunarsjóði á sínum tíma.

Ég vil svo þakka hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðunni og vona að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu í nefnd.