Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:41:48 (5543)

2001-03-12 18:41:48# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. v. um tvö atriði sem hann vék sérstaklega að vil ég láta annað sjónarmið í ljós.

Varðandi síðustu setningu hv. þm. hlýt ég að láta í ljós þá skoðun mína að ef við brygðum á það ráð að reyna að tefja þetta frv. í ljósi væntanlegrar nýrrar skipunar raforkumála, þá værum við að bregðast gjörsamlega hugmyndum og fyrirætlunum eigenda þessa fyrirtækis. Þeir eiga ekki allir málsvara hér á hinu háa Alþingi. Ég tel að fram komi einnig vegna orða hv. þm. um annað efni að þó að fram komi sérstaklega í frv. hvaða hlutverki gjaldskrá á að gegna og hvað stjórn skal gera í því efni innan fyrirtækisins, þá er það alls ekki eina markmiðið með þessum gjörningi. Það er alveg ljóst að eigendur Hitaveitu Suðurnesja og aðilar að samkomulagi við hana af hálfu Hafnarfjarðarbæjar og fleiri sveitarfélaga hafa ekki fallið frá markmiðunum með því samkomulagi, alls ekki. Þetta frv. er aðeins einn leiðarsteinn á leiðinni að því marki sem þar var sett fram, sem voru býsna mörg, en er eitt sameiginlegt takmark. (Gripið fram í.) Það er aðeins það sem kemur fram í frv. en önnur markmið með samkomulagi eigenda fyrirtækisins eru sett fram og gerð er grein fyrir þeim í greinargerð með frv. Það efni mun ekki hverfa þó að greinargerðin verði ekki samþykkt sérstaklega á hinu háa Alþingi.

Að lokum vil ég, herra forseti, benda á að það hefur ekkert komið fram sem segir hvort núverandi eigendur Hitaveitu Suðurnesja ætli eða ætli ekki að breyta þeim verðmætum sem þeir eiga í félaginu.