Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:23:04 (5592)

2001-03-13 15:23:04# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að reyna að átta mig á því hvað hv. þm. á við um áhrif, þ.e. að tryggja áhrif stjórnmálamanna þegar bankar eru í eigu ríkisvaldsins þá er ég að reyna að draga það fram á hvern hátt hann telur að menn ætli að hafa þessi áhrif. Ég skal viðurkenna að það er einn verulegur ótti sem ég hef af því sem hér er að gerast, það er að framsóknarmenn ætli að nota það sem úr þessu kemur til þess að kaupa sér atkvæði. Ég spyr: Er það þannig sem menn ætla að nýta sér þessi áhrif stjórnmálamanna? Er það þannig sem hv. þm. telur að nota eigi bankakerfið, til þess að kaupa sér atkvæði?

Ég þarf aðeins að átta mig betur á því hvað hv. þm. á við þegar hann talar um áhrif stjórnmálamanna sem séu algjörlega nauðsynleg og það sé nauðsynlegt að hafa einn öflugan þjóðbanka til að tryggja þessi áhrif, af því að ríkissjóður sé einhvers konar tryggingafélag fjármálakerfisins. Ég þarf að fá að átta mig á því hvað hv. þm. á við með þessum áhrifum.