Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:58:46 (5730)

2001-03-14 14:58:46# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa þörfu fyrirspurn og fagna þeim umræðum sem fyrirspurnin getur leitt af sér.

Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að rannsóknir á þessu sviði eru afar erfiðar en það er samt sem áður ekki hægt að hafna því að neikvæð áhrif séu til staðar eða um þau hafi verið að ræða í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar. Í öllu falli stendur það upp úr í þeim rannsóknum sem ég hef kíkt í að fólk geti í öllu falli verið misnæmt fyrir neikvæðum áhrifum rafsegulsviðs. Ef um vísindalegan vafa er að ræða þá væri kannski vel athugandi í þessu tilfelli sem öðrum að hafa varúðarregluna til hliðsjónar og sjá í öllu falli til þess að heilbrigði fólksins fái að njóta vafans.