Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:59:57 (5731)

2001-03-14 14:59:57# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera misskilningur hjá hæstv. heilbrrh. að það sé of fátt fólk á Íslandi til að hægt sé að gera faraldsfræðilegar rannsóknir á hlutum eins og þessum. Það kann vel að vera að algengi þessara afleiðinga sé svo lágt að erfitt sé að ná fram eins konar marktækum niðurstöðum. En um hitt er engum blöðum að fletta að hægt er að gera slíkar rannsóknir.

Ég skil vel ugg fólks á Selfossi sem hv. þm. nefndi og þess vegna finnst mér að það væri í sjálfu sér allt í lagi að gerð yrði athugun af þessu tagi.

Ég er sjálfur sannfærður um að rafspenna og rafsegulsvið hefur meiri áhrif á lifandi verur en menn telja almennt. Ég veit að rannsóknir hafa sýnt fram á slíkt hjá dýrum, t.d. fiskum, m.a. á Íslandi.

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti, að það er heil verkfræðistofa á Íslandi sem heitir Innivist sem m.a. sinnir því að leysa vandamál af þessu tagi.