Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:04:04 (5734)

2001-03-14 15:04:04# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið því að hún er að mörgu leyti mjög athyglisverð vegna þess að þarna er verið að rannsaka hluti erlendis sem við þurfum að fylgjast geysilega vel með. Ég vil alls ekki láta misskilja orð mín þannig að við eigum ekki að láta heilbrigði almennt njóta vafans. Auðvitað eigum við að gera það. En við getum ekki lesið annað út úr þeim skýrslum en það sem stendur í skýrslunum. Búið er að fara mjög grannt í gegnum þær og þessari rannsókn er engan veginn lokið. Menn halda áfram.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að ég hefði sagt að ekki væri hægt að gera faraldsfræðilegar rannsóknir. Það er hægt að gera þær en ekki er hægt að fá marktæka niðurstöðu og þess vegna er þessi rannsókn kannski ekki eins mikils virði og þegar hægt er að gera hana á 100 þús. manns. Það var það sem ég var að segja. Þess vegna þurfum við að nýta okkur þau vísindi sem koma erlendis frá. En ég met mikils það starf sem hefur verið unnið á Íslandi á þessu sviði og þó svo það hafi ekki verið vísindalega rannsakað, þá eru ýmsar líkur sem benda til þess að þetta hafi áhrif, kannski á fleira en á krabbamein, líka á félagslega þætti fólks. Það er kannski það sem menn hafa bent á í stórum stíl að þessi félagsfræðilegi og eðlisfræðilegi þáttur komi niður á þeim sem býr nálægt t.d. spennistöðvum.