Byggðakvóti

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:10:51 (5768)

2001-03-14 18:10:51# 126. lþ. 89.11 fundur 499. mál: #A byggðakvóti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Oft hef ég nú verið hissa á svörum hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar um málefni byggðanna. Ég veit ekki hvort best væri að þakka fyrir þetta svar núna með ákveðinni þögn, en ég ætla þó ekki að gera það. Í byggðaáætlun er fjallað um ýmis þessi atriði, eins og t.d. að opinberar aðgerðir miðist við að nýta styrkleika hvers svæðis til atvinnusköpunar og fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, m.a. með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar, verslunar, fiskveiða og vinnslu. Og enn fremur segir hér í einum kaflanum, með leyfi forseta:

,,Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérsaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.``

Að þessu leytinu til er, eins og ég hef oft sagt, byggða\-áætlun svona friðþægingaryfirlýsing ríkisstjórnar, það er lítið gert með þetta og lítið eftir henni unnið, jafnvel þó að við séum á síðasta ári þessarar áætlunar.

Ég hef tekið dæmi af atvinnulífi í Hrísey og þeim vandamálum sem þar sköpuðust vegna þess að útgerðarfyrirtækið hætti og þar var hætt að vinna fisk. Eru þetta skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til íbúa þessa svæðis, að verið sé að bíða eftir að nefndin skili af sér, stóra nefndin sem er að endurskoða fiskveiðimálin og átti að skila núna fyrir þinglok og fyrirsjáanlegt er að verður ekki? Á þetta fólk bara að bíða og bíða?

Á síðasta ári, herra forseti, fækkaði íbúum Hríseyjar um 13,8%. Ég óttast að íbúum Hríseyjar fækki meira eftir svona svör ef umrætt byggðarlag á ekki að geta átt nokkurn kost á því að fá opinbera aðstoð ef svo má að orði komast, ef menn líta á þetta þannig, í formi byggðakvóta eða aukinna fiskveiðiréttinda.

Herra forseti. Mér finnst eins og framsóknarmenn meini ekki nokkurn skapaðan hlut með byggðakvóta og umræðum um breytingu á kvótalögum og öðru, m.a. til að styrkja byggð í landinu sem á mjög í vök að verjast.