Byggðakvóti

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:13:07 (5769)

2001-03-14 18:13:07# 126. lþ. 89.11 fundur 499. mál: #A byggðakvóti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta mjög undarlegur málflutningur. Í fyrsta lagi fer ég ekki með sjávarútvegsmál, það vill svo til, þannig að ég breyti ekki og legg ekki fram frv. til breytinga á lögum um fiskveiðar til þess að (Gripið fram í.) auka byggðakvóta, það held ég að öllum hljóti að vera ljóst. Ég vil hins vegar að það komi fram að ég tel að sá byggðakvóti, þótt hann sé ekki mikill eins og hann er í framkvæmd nú, 1.500 tonn, hafi komið að gagni á nokkrum stöðum á landinu, þó alltaf megi deila um hvernig úthluta skuli slíkum gæðum sem þessi byggðakvóti raunar er, þá kom hann virkilega að gagni á ákveðnum stöðum. Ég ætla ekki að útiloka að hann verði aukinn. Hins vegar er það ekki hlutverk mitt á þessu stigi að vinna í málinu vegna þess að nefnd sem hæstv. sjútvrh. hefur skipað er að vinna að því að reyna að ná sátt í sjávarútvegsmálum. Á meðan ætla ég ekki að beita mér, ég fer ekki fram fyrir hæstv. sjútvrh. í þessu máli.

En út af því að hv. þm. talaði um að hann væri hissa á svörum, þá var ég líka mjög hissa á svörum formanns hans hér í gær sem hafði nú ekki mikinn skilning á byggðamálum. Ég saknaði þess að hv. þm. skyldi ekki vera í salnum til þess að koma til andsvara við formann sinn, því hann talaði nánst gegn því að auka fjármagn til byggðamála. Og það var athyglisvert.

Af því að hv. þm. minnti á fundinn í Hrísey, þá er hann mér ákaflega minnisstæður. Þar tók hv. þm. heldur betur upp í sig því að aðalvandamál þessarar þjóðar að hans mati á þeim fundi voru nokkrir þingmenn, þ.e. hv. þm. Halldór Blöndal, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Tómas Ingi Olrich. Þetta var vandamál þjóðarinnar, sagði hann á fundinum í Hrísey, og var það nú sérstaklega málefnalegt.