Jarðvarmi og vatnsafl

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:24:05 (5773)

2001-03-14 18:24:05# 126. lþ. 89.12 fundur 547. mál: #A jarðvarmi og vatnsafl# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nauðsynlegt er að gera slíkar áætlanir sem hér er um að ræða um hinar stóru vatnsaflsvirkjanir en það má líka spyrja hver sé staða minni vatnsaflsvirkjana í þessu máli. Ég vil vekja athygli á því að þegar um þær er að ræða þarf náttúrlega að taka slík mál inn í, bæði hvað varðar umhverfisþátt og síðan möguleika með minni vatnsaflsvirkjanir til atvinnusköpunar og nýsköpunar þar sem því verður við komið. Það getur verið mörgum til góðs að geta komið sér upp slíkum virkjunum, annaðhvort bændur einir eða saman eða hópar í litlum samfélögum þar sem slík virkjun eða slíkar virkjanir gætu verið reistar sem gætu selt rafmagn inn á netið og stuðlað þannig að atvinnusköpun. Einnig mætti nota þá orku líka til starfa og uppbyggingar fyrirtækja í þessum byggðum.

(Forseti (ÁSJ): Forseti biðst velvirðingar á því að tölvukerfið, tímasetningarkerfið virkaði ekki, en það stendur til bóta.)