Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:03:01 (5789)

2001-03-15 11:03:01# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar vil ég að það komi skýrt fram að ég var eiginlega að hrósa sveitarfélögunum á Suðurnesjum fyrir góð vinnubrögð. Ég veit að þau hafa staðið mjög vel að rekstri og uppbyggingu þessa fyrirtækis. Gagnrýni mín beindist að okkur á Alþingi, ríkinu sem 20% hluthafa, að við hefðum átt að taka þessi mál öðruvísi fyrir. Ég vil frábiðja mér þá túlkun að ég hafi gagnrýnt þá sem unnið hafa að þessum málum á Suðurnesjum, svo er alls ekki. Það er hér innan húss, á hinu háa Alþingi, sem þurft hefði að standa öðruvísi að málum. Við hefðum þurft að gera okkur betri grein fyrir þeirri umgjörð sem við viljum hafa. Það er misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi gagnrýnt viðkomandi sveitarfélög. Svo er alls ekki.

Ég hef sjálfur heimsótt Hitaveitu Suðurnesja mörgum sinnum, nú síðast fyrir nokkrum mánuðum. Ég veit að þar er staðið mjög vel að verki. Ég þekki til slíkrar orkuframleiðslu annars staðar, m.a. úr heimabyggð minni, og síður en svo að ég vantreysti þeim sem stjórna svona fyrirtækjum heima fyrir. Ég lýsti eftir þeirri heildarsýn sem við vildum hafa fyrir landið í þessum málum. Það er hlutverk okkar og meginmálið hér.