Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:45:49 (5802)

2001-03-15 11:45:49# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka að málið var ekki komið til nefndar. Hin þinglega meðferð mála er að þau séu ekki tekin fyrir í nefndum fyrr en þau hafa verið afgreidd til hennar, óháð eðli málsins. Ef við tökum upp vinnulag eins og hér er knúið á um og mál yrðu almennt unnin þannig þá værum við komin út um víðan völl og án vinnuskipulags. Þetta þarf að vera á hreinu óháð því hversu gott málið er í sjálfu sér.

Varðandi það sem hv. þm. minntist á, að þjóðlendumálin skipti ekki máli, þá er það einmitt þveröfugt. Væntingar fyrirtækisins um að styrkja sig í samkeppni lúta að aukinni orkuvinnslu á svæðum sem óvíst er hvort flokkast sem þjóðlendur eða ekki. Enginn getur sagt um það fyrir fram. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi atriði séu á hreinu þannig að fyrirtækið geti með réttu gengið að auðlindunum og haft þar ávinning af.