Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:49:20 (5805)

2001-03-15 11:49:20# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur ítrekað komið fram að mál þetta var afskaplega vel undirbúið. Enginn fulltrúi Vinstri grænna hreyfði athugasemdum við að málið yrði sett á dagskrá á fundi iðnn. Allir nefndarmenn voru sammála um að málið væri það þroskað að hægt væri að taka það á dagskrá og afgreiða frá nefndinni. Það var formlega afgreitt úr nefndinni eftir að því hafði verið vísað þangað. Það er með ólíkindum hvernig hv. þm. Vinstri grænna blása upp þetta mikilvæga en í raun einfalda mál.

Hér leggja þeir í ræður um raforkulög og segjast bíða eftir því að raforkulög verði afgreidd. Þetta hefur ekkert með raforkulög að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Niðurstaðan af raforkulögunum breytir engu um þetta mál.

Hér eru haldnar langar ræður um þjóðlendur og óbyggðanefnd. Málið hefur ekkert með það að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta snýst einfaldlega um það að eigendur fyrirtækjanna vilja sameinast til að búa sig undir samkeppni á orkumarkaði með þær eignir og með þau réttindi sem hvort fyrirtæki um sig hefur og telja það auka styrk sinn. Þeir vilja skapa sóknarfæri fyrir þessi sveitarfélög og þau svæði sem bæði orkufyrirtækin starfa á.

Herra forseti. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að fulltrúar Vinstri grænna skuli koma hér hver á eftir öðrum, heldur neikvæðir í garð þessa máls og vilja draga lappirnar. Það er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar Vinstri grænna á Alþingi sýna slíka neikvæðni þegar fjallað er um framfaramál í atvinnulífi og reynt að skapa sóknarfæri fyrir einstök svæði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar Vinstri grænna leggjast á þær árar hér í sölum hv. Alþingis. Í mínum huga er orðið íhald og jafnvel afturhald að fá á sig nokkuð skýra mynd á Alþingi.