Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:02:19 (5854)

2001-03-15 16:02:19# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að það er ánægjulegt að þessi ræða hæstv. félmrh. var nokkuð jákvæð og gefur tilefni til bjartsýni hvað varðar aðgerðir enda eru þær orðnar nauðsynlegar.

Í framhaldi af því að félmrh. hefur ritað það bréf sem hefur verið til umræðu þá viðrar hann hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir leggi fram 10% í íbúð vegna leigu sjóðfélaga. Ég ætla náttúrlega að nefna það strax að það er a.m.k. ekki hægt fyrir lífeyrissjóðina að lána sjóðfélögunum 10%, ekki ef þetta eiga að vera leiguíbúðir. Það verður að finna annað form þannig að við fyrstu sýn hugnast mér nú betur að reynt sé að fara út í einhvers konar eignarhaldsfélag því að einhver verður að eiga hlutinn sem þeir sem leigja eru að leigja. Síðan verður að tryggja það með alhliða aðgerðum að húsaleiga fari ekki yfir 6%, það höfum við skoðað mjög ítarlega.

Varðandi það að ráðherrann telur að húsnæðiskerfið gefist vel þá er húsbréfakerfið ágætt og hefur reynst sérstaklega gott lánsform ef ekki myndast teppa eins og þegar félagslega kerfið var aflagt með þeim afleiðingum sem ég lýsti í ræðu minni og ætla náttúrlega ekki að endurtaka.

En ég vil spyrja hæstv. félmrh. eftir ræðu hans: Er e.t.v. að opnast möguleiki á því að félmn. afgreiði þetta mál jákvætt frá sér, þó með breytingum sé, og þar með sé undirstrikað af hálfu ráðherrans að vilji sé til að taka á sameiginlega í þessu brýna hagsmunamáli?