Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:09:18 (5858)

2001-03-15 16:09:18# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem hafa orðið um tillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar um að auka framboðið á leiguhúsnæði. Þær hafa verið jákvæðar á flesta lund og er fyllilega ástæða til að ætla að breið samstaða sé um að fara þá leið sem hér er mörkuð í þeirri tillögu sem við höfum farið í gegnum í dag. Ég held að það mundi bara styðja við ráðherrann og þær hugmyndir sem hann hefur líka í þessu efni, sem falla að þeim hugmyndum, ef hann fengi breiðan stuðning þingsins til að framfylgja þessari tillögu vegna þess að ekki veitir nú af með samstarfsflokk hans, Sjálfstfl., sem hefur reyndar aldrei verið neitt sérstaklega uppnuminn yfir leiguhúsnæði eins og fram kemur m.a. í því sem við vorum að nefna hér um skattlagningu á húsaleigubótum. Hæstv. ráðherra ætti að fagna því ef hann fengi stuðning þingsins með samþykkt þessarar tillögu og auðvitað erum við opin í Samfylkingunni fyrir öllum breytingum sem mættu verða til þess að ná samkomulagi um að fara í þetta mál vegna þess að ég held að þetta þurfi að gerast í formi ákveðinnar áætlunar sem menn vinna eftir. Það er ekki víst að menn vilji hafa það hér til frambúðar að hafa einhverja niðurfellingu t.d. á lóðar- eða gatnagerðargjöldum eða ákveðnum atriðum sem eru í þessari tillögu eða hugmyndum ráðherra til frambúðar þó að menn gætu hugsað sér að hafa það meðan við værum að leysa mesta vandann.

Fyrst varðandi húsaleigubæturnar svo það sé alveg skýrt. Ráðherrann er það reyndur í stjórnmálum, ætli hann sé ekki orðinn elstur allra þingmanna í starfsaldri hér eða a.m.k. nálægt því, að hann veit það, ekki síst sem ráðherra, að það að vera að vitna til þess að þegar húsaleigubótakerfinu var komið á fyrir a.m.k. átta árum þá var það forsenda þess að ná málinu í gegnum Sjálfstfl. að þetta yrði haft með þessum hætti. Annars er ekki einu sinni víst að við værum með nokkurt húsaleigubótakerfi í dag vegna þess að það var ekki auðvelt mál að ná húsleigubótakerfinu í gegn í samstarfi við Sjálfstfl. í ríkisstjórn. Ég býst við að hæstv. ráðherra hafi fundið fyrir því í samstarfi sínu við Sjálfstfl.

Það varð að samkomulagi á þeim tíma að húsaleigubætur yrðu skattlagðar en þó með því að greiðslur húsaleigubóta hækkuðu sem samsvaraði skattinum. Aldrei var samið um það neitt til frambúðar, það er ekki einu sinni til skriflegt samkomulag um slíkt. Þetta átti bara að vera til þess að lögfesta húsleigubótakerfið, setja það á lögbókina, og ég kallaði það kraftaverk að ná því þannig í gegn með Sjálfstfl., hvað þá að þeir viðurkenndu hækkun á húsaleigubótagreiðslunum á þeim tíma sem samsvaraði skattinum. Ég ætla að biðja ráðherrann að láta það ekki þvælast fyrir sér vegna þess að það er náttúrlega fyrirsláttur af hálfu ráðherrans ef hann ætlar að nota það til að afsaka að hann nái því ekki fram að afnema skattlagninguna á húsaleigubótum.

Hæstv. ráðherra nefnir lífeyrissjóðina og talar um að 10% komi frá þeim en nefnir um leið að vaxtagreiðslurnar séu í dag 6,5% sem þyrfti þá að greiða af þeim lánum. Ég óttast það, ef það er með þeim hætti, að þá verði greiðslubyrðin meiri en hún þyrfti að vera ef farin væri sú leið sem við erum að tala um að veitt væri 95% lán og það væri þá á þeim kjörum að það samsvaraði 1% vöxtum. Það er raunverulega það sem við erum að tala um í tillögum okkar og niðurgreiðslan gæti verið í formi vaxtaendurgreiðslu eða stofnstyrkja sem þyrftu þá að vera heldur hærri.

Ég vil líka leyfa mér að efast um það, herra forseti, með tilliti til þeirra fjárhagslegu samskipta sem hafa verið milli ríkis og sveitarfélaga --- enda hefur hæstv. ráðherrann allan fyrirvara á því, ég heyri það --- að hægt sé að ná því fram að sveitarfélögin komi inn með 2--3% stofnstyrki á móti ríkinu. Ef farið væri fram með þá stofnstyrki sem ráðherrann nefndi þá værum við komin á mjög viðunandi grundvöll í þessu efni. En þetta er alls ekki í hendi og í tillögu okkar er gert ráð fyrir, eins og hæstv. ráðherra hefur séð, að ríkissjóður komi inn með 85% þess framlags sem þarf til að ná þessu marki en sveitarfélögin bara 15%. En raunverulega er ráðherrann samkvæmt þessu, af því að mesti þunginn er auðvitað í vaxtaendurgreiðslunum og stofnstyrkjunum, að tala um að 50% komi frá sveitarfélögunum og 50% frá ríkinu, sem er miklu þyngri byrði á sveitarfélögin og sveitarfélögin hafa kannski ekki verið óskaplega dugleg við það í gegnum árin að koma upp leiguíbúðum og ekki einu sinni þegar þær voru með 1% vöxtum, hvað þá ef vaxtabyrðin yrði meiri. Ég spyr því ráðherrann af því að hann svaraði ekki þeirri spurningu hjá mér áðan: Telur hann þá leið ekki koma til greina sem ég er að benda á, þ.e. 95% lán til sveitarfélaga og félagasamtaka?

[16:15]

Af því að hæstv. ráðherra hefur nefnt Búseta í þeirri skoðun sem fram fer á vegum ráðuneytis hans þá spyr ég ráðherrann svo það fari ekki á milli mála: Í þeirri skoðun sem fer fram í ráðuneyti hans, sem er þá í formi þess að lánað verði 100%, ef ég skil ráðherrann rétt, og til komi ákveðnir stofnstyrkir, lóða- og gatnagerðargjöld eða ígildi þeirra af hálfu sveitarfélaganna, sem yrði þá lagt inn sem hlutafé af hálfu sveitarfélaganna, hvað með félagasamtök sem hafa verið að byggja leiguíbúðir og gert hefur verið mjög mikið átak í? Ég er að tala um Öryrkjabandalagið og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Er hæstv. ráðherra í viðræðum við þá aðila varðandi byggingu leiguíbúða almennt? Ég þekki það sem ráðherrann nefndi varðandi sambýlin og samkomulagið við Öryrkjabandalagið. Það er annars eðlis en við erum að tala um hér. Eru þeir aðilar líka í samráði við ráðherrann um uppbyggingu, þ.e. ekki lánasjóðurinn, heldur stúdentagarðarnir og Öryrkjabandalagið?

Ég nefndi áðan tölur í því sambandi, að 440 einstaklingar bíða eftir leiguíbúðum hjá Öryrkjabandalaginu og við þann lista bætast árlega 100 manns og hjá stúdentum eru um 300--400 manns sem bíða og ekki er hægt að leysa það hjá þeim. Mér finnst mjög mikilvægt að vita hvort í skoðun ráðherra á þessu máli komi þessir aðilar einnig að.

Ég vil einnig nefna og spyrja hæstv. ráðherra, sem ég tel líka mikilvægt og tengist raunverulega þessu máli af því að við erum að tala um ákveðnar viðmiðanir, hverjir geti átt rétt á leiguíbúðum o.s.frv., af því að við erum að miða við ákveðnar tekjur fólks þar sem væntanlega er þá litið á ákveðin viðmið bæði hjá þeim sem standa að leiguíbúðum og öðrum, þ.e. hvaða tekjur fólk getur haft sem fer inn í slíkt kerfi. Fyrir þinginu liggur tillaga frá okkur í Samfylkingunni um að gerður verði ákveðinn neyslustaðall sem ég tel ákaflega mikilvægan og t.d. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið að kalla eftir. Við leggjum til að unnið verði að gerð samræmds neyslustaðals um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld um ýmsar ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja velferðarkerfisins. Ég spyr um þetta af því að ég tel þetta afar mikilvægt tæki til þess að nota þegar verið er að ákvarða fjárhæðir bóta og styrkja, eins og t.d. húsaleigubóta sem við höfum verið að ræða hér. Og einnig sé það grundvöllur að greiðsluáætlun og greiðslumati hjá lánastofnunum að því er varðar húsnæðismál.

Ég spyr ráðherrann af því að ég veit að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið að kalla eftir þessum neyslustaðli: Hver er skoðun ráðherrans á því að gerður sé slíkur neyslustaðall? Getur hann fallist á þær hugmyndir sem við höfum lagt fram í því sambandi að nauðsynlegt sé að vinna að málum með þeim hætti eins og við leggjum til varðandi það?

Ég vil einnig spyrja ráðherrann, af því mér fannst ráðherrann sýna því mikinn skilning að húsnæði vantar og hann nefndi leiguhúsnæði óháð tekjum. Það er alveg rétt, eins og við höfum farið inn á, að ákveðinn valkost vantar fyrir hóp sem hefur lent þarna á milli: Telur ráðherrann að til greina komi að endurvekja valkost eins og t.d. var með kaupleigukerfinu eða eitthvað í þeirri mynd að þeir sem eru þarna á milli gætu hugsanlega komist af með einhvern slíkan kost eins og kaupleigukerfi, sem bauð fólki upp á að leigja í ákveðinn tíma og síðan að kaupa og það væri þá að eignast húsnæðið? Telur hæstv. ráðherra að til greina komi að skoða einhvern slíkan kost?

Ég hef heyrt hjá þeim sem vinna að húsnæðismálum, m.a. í höfuðborginni, að mikil þörf sé fyrir slíkan valkost og fólk bendir oft á að sá valkostur hafi verið í kaupleigukerfinu og fólk sem vinnur að því að leysa þessi vandamál sem við erum með hér sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu vildi gjarnan sjá slíkan valkost.

Síðan vil ég spyrja ráðherrann: Hefur hann sett einhver tímamörk á það hvenær niðurstaða fæst í þeirri skoðun sem verið er að vinna á hans vettvangi?

Nú geri ég ráð fyrir að einhverjar af þeim leiðum sem ráðherrann hefur nefnt og eru í tillögu okkar samfylkingarfólks þurfi ákveðna breytingu á lögum, að lagasetningu þurfi til þess að framfylgja henni og þeim hugmyndum og úrbótum sem hafa komið fram, m.a. hjá ráðherranumþ Ég spyr því: Verður þetta það tímanlega að hægt sé að setja það í lög sem þarf að setja í lög til þess að ráðast í það átak sem menn eru sammála um?

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að lengja frekar umræðuna. Hún hefur verið sérstaklega ánægjuleg og í alla staði vekur hún vonir um að bjartari tímar séu fram undan á leigumarkaðnum en við höfum séð lengi. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér einhverjar tímasetningar í þessu efni þannig að hægt væri að fylgja málinu eftir með nauðsynlegum lagasetningum að lokinni skoðun hans og ráðuneytis hans á því og eftir að félmn., sem fær þetta mál til meðferðar, hefur fjallað um tillöguna sem mér sýnist að hægt sé að ná breiðri samstöðu um hér í þinginu.