Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:34:10 (5862)

2001-03-15 16:34:10# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er að reyna að rugla fólk í ríminu og dreifa athyglinni frá þeim vanda sem fólk stendur frammi fyrir með þessari talnarunu sem hann fer með og ég fullyrði að eru ekki sambærilegar tölur. Eigi þær að vera sambærilegar þá lítum við bara mismunandi augum á hvað teljist félagslegar íbúðir og hvað ekki. Ég get varla kallað það félagslegar íbúðir sem keyptar eru með 5,7% vöxtum. Ég get varla litið á leiguíbúðir sem félagslegan valkost nú orðið þegar vextirnir nálgast markaðsvexti. Ef hæstv. ráðherra bæri saman lán eins og þau voru fyrir hans ráðherratíð, vaxtakjör þá og vexti af lánum núna þá eru það ekki sambærileg kjör.

Mér fannst ráðherrann byrja vel í dag þegar hann talaði um framtíðina og það sem gera þyrfti en nú virðist hann kominn aftur í fortíðina þar sem hann fótar sig mjög illa, herra forseti. Hann hefur staðið fyrir breytingum sem leitt hafa til þess neyðarástands sem við búum við í dag. Mér fannst á máli ráðherrans fyrr í dag að hann hefði séð að sér og ætlaði að reyna að vinna að úrbótum vegna þess hvernig komið er fyrir félagslega íbúðakerfinu og leigumarkaðnum. Við skulum vona að ráðherrann haldi sig við efnið og reyni ekki að renna sér á hálum ís í fortíðinni vegna þess að fortíð ráðherrans í þessu efni er ekkert til að státa sig af.