Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:44:37 (5865)

2001-03-15 16:44:37# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessa þáltill. og honum og mönnum hans fyrir það mikla starf sem hér hefur verið lagt af mörkum í þeirri viðleitni að sporna við þeirri miklu slysatíðni sem um nokkurra áratuga skeið hefur verið allt of há meðal íslenskra fiskimanna og hjá farmönnum.

Ég hlýt að koma inn á það að fyrrv. hæstv. samgrh. skipaði fimm alþingismenn í nefnd, þann sem hér talar, sem gegndi formennsku, Stefán Guðmundsson, Guðjón Guðmundsson, Gísla S. Einarsson og Kristin H. Gunnarsson. Nefndinni var ætlað að gera tillögur að úrbótum í öryggismálum sjómanna.

[16:45]

Þessi hv. nefnd skilaði síðan af sér í júnímánuði 1998 og lagði til ýmsar úrbætur í öryggismálum sjómanna upp á 18 liði. Hins vegar var skýrslan ekki nema upp á þrjár blaðsíður og vakti það nokkra athygli og umræðu.

Það verður að segjast eins og er að þegar nefndin fór á stúfana og fór að fjalla um þetta mál var hún sammála um að það lægi ljóst fyrir hvar skórinn kreppti helst að í öryggismálum sjómanna og taldi ekki ástæðu til að vera með langlokur í því máli, búa til mikla skýrslu með miklu lesefni heldur að komast að kjarna málsins.

Þá kem ég að þeirri ágætu þáltill. sem hæstv. samgrh. var að mæla fyrir. Þar má sjá að flest þeirra atriða sem þessi fimm manna þingmannanefnd komst að eru einmitt tekin upp og eru í þessari ágætu þáltill. Ég vildi aðeins koma inn á, með leyfi hæstv. forseta, nokkur atriði sem eru mjög mikilvæg og skipta sjómannastéttina miklu máli. Það er t.d. um skipulegar æfingar og þjálfun og útgáfa samræmdrar fræðslu um hífingarbúnað. Merkingar á hættusvæðum í skipum. Slysa- og óhappaskráning í skipum. Endurnýjuð sjókort séu gefin út og þau séu aðgengileg sem víðast. Síðan eru fleiri atriði eins og slysatryggingamál. Bótarétt sjómanna þarf að skoða og þurfa stjórnvöld, samtök sjómanna og útgerðir og tryggingafélög að vinna saman að útfærslu málsins.

Þetta er eitt af því sem þingmannanefndin gerði að nokkru máli í skýrslu sinni. Sannleikurinn er sá að þetta er eitt það alvarlegasta vandamál sem sjómannastéttin hefur staðið fyrir vegna þess að þegar slys verður á skipi hefur það undantekningarlaust verið þannig að þegar leitað er eftir bótarétti sjómannsins þarf hann að sanna sök. Það er með ólíkindum á þessum tíma að svo skuli vera. Hins vegar varð í síðustu kjarasamningum milli Sjómannafélags Reykjavíkur og útgerða kaupskipa mikil og góð breyting gerð á þessum þætti í þá veru að nú eru sjómenn nánast kaskótryggðir.

Þetta er eitt þeirra atriða sem deilt er um í þeim kjarasamningum sem standa nú yfir milli fiskimanna og útgerðar fiskiskipa. Vonandi finnst lausn á þessu vegna þess að það mátti sjá í mörgum tilvikum þegar slysaskýrslur voru gerðar að þar virtust menn fara út og suður og hlaupast undan raunveruleikanum í þessu máli tryggingabótanna vegna. Þetta er því hið besta mál og vissulega full ástæða til að hér sé tekið á.

Ég hnaut um það í þessari þáltill. að nauðsynlegt væri að endurnýja sjókort og að hafa þau aðgengileg sem víðast. Fyrir nokkrum dögum, virðulegi forseti, fékk ég svar frá dómsmrh. við spurningu minni um sjómælingar við Ísland þar sem ég spurði frá hvaða tíma væru elstu dýpistölur sjómælinga við Ísland, sem enn er stuðst við á sjókortum, og hverjir önnuðust þær mælingar? Svarið er eftirfarandi:

Elstu dýptarmælingar sem stuðst er við eru frá árunum 1890--1913. Danir önnuðust þessar mælingar og ná þær hringinn í kringum landið. Í einstökum tilvikum er stuðst við eldri mælingar svo sem í Breiðafirði en þær voru gerðar 1860 af Frökkum. Hér er vissulega verk að vinna. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. hafi áhrif þar á. Sagt er að til þess að koma sjókortum við Ísland í gott lag, miðað við þann vinnuhraða sem viðgengst nú hjá Sjómælingum Íslands, muni það taka næstu 30--40 árin.

Annað sem er líka farið inn á, og er hið besta mál, er skipulag skyndiskoðana á skipum. Það þurfi að skipuleggja. Reglum um öryggisráðstafanir við hífingar sé betur fylgt. Við höfum komið inn á það að það er með ólíkindum að ef krani eða lyftari er uppi á bryggju þá þurfa menn að hafa sérstök próf og hafa farið í sérstök námskeið til að læra að hífa og vinna með lyftara. En ef sömu tæki eru flutt um borð í skip þarf enga pappíra, engin skírteini, engan lærdóm. Svo er það sérkennilega að þegar slys verður á bryggju þá kemur Vinnueftirlit ríkisins, en þegar slys svo verður um borð í skipi sem liggur við bryggju þá kemur sjóslysanefnd. Þarna þarf vissulega að gera einhver skil á milli.

Við nefndarmenn í þeirri nefnd sem gerði tillögur um úrbætur í öryggismálum sjómanna komum líka inn á að það væri með ólíkindum að Siglingastofnun tæki ekki út burðarþol lása, slitálag víra, og hvernig ástand blakka og hífibúnaðar væri vegna þess að þar verða slysin. Þar er slysatíðnin mest um borð í skipum. Hún er í kringum þennan tröllaukna og mikla hífibúnað fiskiskipanna. En hér er gerð tillaga um betra eftirlit og það er af hinu góða.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. En ég vil aðeins ítreka ánægju mína með að hér skuli vera komin fram till. til þál. um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda og það er nýtt. Það hefur aldrei gerst áður að svo mikil áhersla sé lögð á öryggismál sjómanna eins og hér er gert og ber vissulega að fagna því. Ég vænti þess að samgn., þar sem ég á sæti, muni vinna þetta mál hratt og vel.