Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 17:55:28 (5890)

2001-03-19 17:55:28# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, Forseti GÁS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Forseti vill í tilefni af orðum hæstv. forsrh. taka fram að á fundi forsn. klukkan fjögur lét ég þess getið að ég teldi allar líkur á að fulltrúar stjórnarandstöðu mundu óska eftir því að milli umræðna gæfist tóm til þess að stjórnarandstaðan ræddi við deiluaðila og fengi viðhorf þeirra til stöðu mála. Það var áður en ég heyrði óskir stjórnarandstöðunnar þar um en þær höfðu hins vegar verið látnar í veðri vaka.

Ef uppi er ágreiningur um með hvaða hætti þetta ráðrúm verði notað, sem ég hygg að sé góð samstaða um hér í þingsalnum, þ.e. eftir 1. umr., hygg ég að ráðið sé að forseti hitti fulltrúa þingflokkanna og fari yfir það.

Umfram allt legg ég áherslu á að góð sátt sé um að ráðrúm gefist, hvort heldur það verði á vettvangi einstakra þingflokka, þeirra sameiginlega ellegar fagnefndarinnar sjálfrar, eftir 1. umr. Það er mergurinn málsins að áliti forseta og þau skilaboð sem hann reyndi að bera öllum hlutaðeigandi aðilum.