Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:54:34 (5909)

2001-03-19 18:54:34# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt að vekja athygli á því hvers konar flýtir er á þeim málum sem við erum nú að ræða. M.a. má benda hæstv. sjútvrh. á að ef ríkisstjórninni tekst að keyra þessi lög í gegnum Alþingi á þessum degi eins og ég held að að sé stefnt, þá verður hafnarfríi sumra sjómanna sennilega bara alls ekki lokið, hæstv. ráðherra. Ég hygg að þó nokkur hluti loðnuflotans hafi ekki komið til hafnar fyrr en á seinni hluta föstudagsins. Jafnvel ekki fyrr en á laugardaginn. (Gripið fram í: Eru þeir nokkuð búnir að landa?) Ég efast um að þeir séu búnir að landa allir. (Gripið fram í.) Frystiskipaflotinn --- ætli menn þar eigi ekki fjóra eða fjóra og hálfan sólarhring í fríi frá því þeir koma til hafnar. Menn hætta veiðum og síðan klára þeir að vinna aflann og sigla til hafnar og gera skipin klár. Það þýðir þrif og annað. Menn eru því að koma til hafnar kannski sólarhring eftir að verkfall hefst.

Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er hálfgert óðagot sem hér er verið að framkvæma. Og það er nánast eins og menn séu komnir með allt í buxurnar, þurfi að grípa fyrir. Það hefði nú verið allt í lagi þó a.m.k hin löglegu hafnarfrí margra sjómanna væru þá liðin áður en menn færu að hugleiða slíka gjörð sem hér er lögð til.

Þar að auki er kannski rétt að benda hæstv. ráðherra á að margir sjómenn töldu að loðnan væri það langt gengin eins og sagt er að það færi að verða spurning hversu mikil verðmæti væru í henni eftir þessa daga. Það á auðvitað eftir að koma í ljós ef þessum lögum verður rúllað hér í gegn, hvernig það ber við allt saman.

Ég vil að lokum segja, án þess ég fari að tefja málið neitt hér, ég vil frekar komast til að ræða við deiluaðila um það í sjútvn., að ég tel að kominn sé ákveðinn stimpill á stjórnarflokkana. Sá stimpill er að þeir eru alltaf tilbúnir til að grípa inn í deilur sjómanna nánast án þess að mönnum sé gefinn tími til þess að vinna úr sínum málum. Fréttir sem við heyrðum í dag voru í þá veru að heldur væri að þokast í einhverjum atriðum og menn væru að nálgast þau. Þá er gripið inn í málin.

Hvað halda menn að gerist á næstu dögum? Halda menn að mikill árangur verði af þessum viðræðum á næstu dögum? Ég á ekki von á því. Það er ekki reynslan þegar lög hafa verið sett.

Ég hygg að því miður muni menn kannski standa í sömu sporum 1. apríl sem er sú dagsetning sem hæstv. ráðherra tilkynnti úr þessum ræðustól að yrði sennilega niðurstaða frv. ríkisstjórnarinnar.

Það ber alltaf allt að sama brunni í þessum deilum. Farið er að vilja útvegsmanna í að grípa inn í deilurnar. Menn hljóta að geta litið í eigin barm til að skoða hvaða árangri menn halda að þeir nái þegar annar aðilinn telur sig alltaf hafa vissu fyrir því að krafturinn í verkfallsaðgerðunum, sem er auðvitað neyðarlausn þessara manna til að ná fram kjarasamningum, verði tekinn burt. Þetta er ekki ásættanlegt, herra forseti.