Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:07:11 (5923)

2001-03-26 15:07:11# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er að sönnu vandratað fyrir þingmenn að sinna skyldu sinni á hinu háa Alþingi. Svar hæstv. forsrh. við einfaldri fyrirspurn okkar þriggja þingflokksformanna stjórnarandstöðuflokkanna felur í sér að á grundvelli upplýsingalaga og annarra laga hafi hv. þm. í raun sama aðgang að gögnum sem undirbúin eru fyrir ríkisstjórnina og aðrir utanaðkomandi aðilar. Með öðrum orðum er sagt í svarinu að í raun sé því enginn eðlismunur á þeim aðgangi sem almenningi er veittur á grundvelli upplýsingalaga og þeim aðgangi sem þingmönnum er veittur á grundvelli stjórnarskrárvarins fyrirspurnaréttar þeirra um opinber málefni.

Herra forseti. Þetta er náttúrlega algerlega óviðunandi túlkun á því lagaumhverfi sem verið er að ræða um og hlýtur að kalla á endurskoðun á þeim lögum sem málið snertir. Reyndar er það svo að vitnað er í þessu svari til skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda, en ef ég man rétt er þar gerður þó nokkur greinarmunur á því hvort um er að ræða upplýsingar sem þingmenn biðja um eða hvort um er að ræða aðgang annarra á grundvelli upplýsingalaga.

Herra forseti. Það endurtekur sig aftur og aftur hér að við hv. þm. fáum engin svör við spurningum sem við beinum til hæstv. ráðherra og getum þar af leiðandi ekki sinnt skyldum okkar sem skyldi. Reyndar er það svo að Samfylkingin telur nauðsynlegt að skoða þetta lagaumhverfi mun betur og kanna hvar þurfi að bæta úr til þess að þingmenn geti fengið lausn þannig að þeir geti sinnt skyldu sinni á hinu háa Alþingi. Að öllu leyti er það a.m.k. ljóst að algerlega óviðunandi er, herra forseti, fyrir þingmenn að búa við þá túlkun sem hæstv. ríkisstjórn notar á þeim lögum sem varða rétt þingmanna til upplýsinga um málefni.