Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:11:57 (5925)

2001-03-26 15:11:57# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Meginregla íslensks réttar er að almenningur eigi aðgang að upplýsingum um málefni stjórnsýslunnar. Það gerist ekki nema með aðgangi að gögnum og hann verður að tryggja. Hér ríkir upplýsingafrelsi. Og það er sannarlega undarlegt að heyra hæstv. forsrh. dylgja úr ræðustóli um að hér sé verið að etja þingmönnum upp í ræðustól Alþingis af einhverju fólki úti í bæ eftir því sem manni skildist á lokaorðum hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hverjar eru forsendur þess að hæstv. forsrh. telur nauðsynlegt að leyna efni þess minnisblaðs sem hér er fjallað um? Hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að búið sé að gefa alþingismönnum upplýsingar um allt sem nauðsyn bar til að gefa þeim upplýsingar um.

Herra forseti. Ég vil ekki setja það í dóm hæstv. forsrh. að meta hvað sé nauðsynlegt að veita okkur af upplýsingum. Verið er að biðja um upplýsingar sem koma fram í ákveðnu minnisblaði sem alþingismenn telja sig eiga rétt á samkvæmt upplýsingalögum og stjórnarskrá að eiga aðgang að. Um það er deilt og ég frábið mér þær dylgjur sem hér koma fram í máli hæstv. forsrh. um að alþingismönnum sé att í ræðustól af utanaðkomandi aðilum.