Laxeldi í Klettsvík

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:33:55 (5937)

2001-03-26 15:33:55# 126. lþ. 97.1 fundur 409#B laxeldi í Klettsvík# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þegar ég stóð á kassanum í Klettsvík og fuglabjargið ómaði og þeir stóðu þarna nokkrir við hliðina á mér, þá sagði ég að ef ég sæi trýnið á Keikó þá mundi ég kyssa hann og segja: Far vel Frans.

Keikó fær frelsi í sumar og víkur á vit nýrra ævintýra. Í Klettsvík er mikil aðstaða og Veiðimálastofnun, veiðimálastjóri, Náttúruvernd ríkisins og skipulagsstjóri mæltu með því að þar færi fram 1 þús. tonna eldi á laxi. Það er alger tilraun af því að hitastigið í Vestmannaeyjum er sambærilegt og í Færeyjum, 8--13 stig, og allt öðruvísi en annars staðar við landið. Þar er að vísu mikil sjóhæð og önnur veðrátta þannig að vísindamennirnir töldu mikilvægt að fara hægum skrefum og gera slíka tilraun. Þeir vildu gefa undanþágu til þess og ég var tilbúinn að fallast á það. Auðvitað verður farið að hinum ströngustu kröfum eins og frv. boðar sem nú er fyrir hv. landbn.

Sama má segja um rekstrarleyfin tvö sem gefin hafa verið út fyrir Mjóafjörð og Berufjörð. Til þeirra leyfa og starfseminnar sem þar er að hefjast eru gerðar mjög strangar kröfur. Mér finnst sjálfsagt að sýna landbn. þá virðingu að kynna þeim þessi leyfi, hafi það ekki verið gert, þ.e. á hverju rekstrarleyfin byggja. Ég skal því sjá til þess að einhver af mínum ágætu starfsmönnum komi á fund nefndarinnar og fjalli um það.

Hitt málið, varðandi Vestmannaeyjar, snýst um 1 þús. tonna leyfi til þriggja ára til að kanna þessar mikilvægu aðstæður við eyjarnar, hitastigið o.s.frv.