Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:18:36 (5977)

2001-03-26 17:18:36# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er í rauninni ekki hissa á að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir skuli hafa komið upp í andsvari því að ég skildi fyrri hluta ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lýsti áðan. Mér fannst í rauninni fyrri hluti ræðunnar vera eins og líkræða yfir sparisjóðum og því er ekkert eðlilegra en að þeir sem hlýddu á --- og ég lagði mig fram um að hlusta --- drægju þá ályktanir að hv. þm. væri að leggjast gegn þessum breytingum.

Ég fagna hins vegar síðari hlutanum en á erfitt með að koma þeim saman því að mér finnst að fyrri hluti og síðari hluti ræðunnar stangist nokkuð á. Ég held að rétt sé, herra forseti, að draga það fram að hér er ekki um að ræða að leggja niður sparisjóði. Þvert á móti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að þar sem sparisjóðir hafa starfað hafa þeir gegnt gífurlega mikilvægu hlutverki fyrir starfsumhverfi, ekki síst í ljósi þeirrar heimatilfinningar sem væntanlega gerir það að verkum að þeir hafa verið jafnöflugir hver í sínu héraði og raun ber vitni.

Hins vegar hafa orðið mjög miklar breytingar á fjármálamarkaði og þess vegna er mjög mikilvægt að opna sparisjóðunum möguleika á því að bregðast við samkeppni. Það er einmitt það sem frv. gengur út á, þ.e. að opna heimildir fyrir stjórnendur og eigendur sparisjóðanna til að bregðast við. Ekki er verið að þvinga þá til eins eða neins. Annars vegar er verið að opna fyrir heimildarákvæði til að breyta í hlutafélag ellegar fyrir þá sem ekki vilja fara þá leiðina að styrkja stofnfjárhluta sinn og þar með styrkja sparisjóðina. Þess vegna er eðlilegt að setja það upp með þeim hætti og treysta einmitt þeim sem hafa svo ágætlega rekið sparisjóðina á síðustu árum til að taka þá ákvörðun sem hverjum og einum sparisjóði hentar best.