Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:20:47 (5978)

2001-03-26 17:20:47# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef einhver rauður þráður var í ræðu minni var það nákvæmlega það að virða sjálfsákvörðunarrétt sparisjóðanna og hafa lagaumhverfið þannig að þeir ættu áfram allan kost á því að velja þá leið sem þeir teldu sér hagstæðasta.

Ég furða mig á þessum athugasemdum. Ég hélt að það væri nóg að einn hv. þm., Svanfríður Jónasdóttir, kæmi upp og legði algjörlega út af nokkrum setningum í fyrri hluta ræðu minnar og léti eins og hún hefði ekki heyrt það sem þar kom á eftir, en hv. þm. Hjálmar Árnason bætir um betur og kemur með sömu útlistanirnar.

Er það þá virkilega þannig að ekki megi fara yfir málin á þann hátt að reyna að segja bæði kost og löst og fara fram á rökstuðning fyrir þeim breytingum sem menn ætla sér að fara að gera? Ef niðurstaðan er sú að ærin rök séu fyrir því, þá gera menn það. En það er ekki eins og það sé eitthvað fyrir fram sjálfgefið. Og ef eitthvað væri sem ég vildi ekki gera, þá væri það að flytja útfararræðu eða líkræðu, eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það, yfir sparisjóðunum. Ég hef verið eindreginn og mikill stuðningsmaður þeirra og fyrir því má finna ýmsar heimildir.

Varðandi breytingar, þá eru menn alltaf svo óskaplega uppteknir af því, sumir hverjir, að þeir hafi uppgötvað eiginlega einir manna að heimurinn sé að breytast. Ég hef alltaf voðalega gaman af því þegar menn taka að sér að tilkynna okkur hinum að heimurinn sé að breytast. Það er svo gott að hafa svoleiðis fólk á meðal okkar sem tekur eftir þessu og getur sagt okkur hinum frá því. Það hefur alveg ómetanlegt gildi.

En nú vill svo til að svona breytingar eru hvorki nýjar af nálinni né er Ísland eina landið sem hefur fengið þær yfir sig. Þannig má t.d. segja að sambærilegar breytingar og þróun á fjármálamarkaði hafi víða erlendis gengið yfir áratugum fyrr en á Íslandi í bankamálum. Samt hafa sparisjóðir víða haldið mjög sterkri stöðu sinni áfram og eflst í hefðbundnum rekstri sem sparisjóðir, t.d. í Þýskalandi og á Spáni. Það er ekki endilega þannig að við höfum óyggjandi rök fyrir því að hefðbundnir sparisjóðir sem ekki mundu breyta sér í hlutafélög eða sækja sér aukið fé með öðrum hætti gætu ekki átt blómstrandi framtíð fyrir sér þó svo að við gerðum ekki þessar breytingar.