Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:52:23 (6005)

2001-03-27 13:52:23# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er af hinu góða, svo dapurlegt sem það þó er, að umræða um vændi og allt sem því tengist er að koma úr kafinu hér á landi og skýrslan sem er til umræðu er vissulega mikilsvert innlegg í það mál. Skýrslan staðfestir að vændi fyrirfinnst og skýrslan staðfestir að vændi, og það að nokkru leyti skipulagt, tengist kynlífsiðnaðinum sem hér hefur fengið að dafna við mikið andvaraleysi yfirvalda undanfarin ár.

Rætur og orsakir þessa vandamáls eru að sjálfsögðu félagslegar og samfélagslegar. En lagaumhverfið skiptir líka máli og skýrslan dregur það fram að því er áfátt hér og því er öðruvísi farið en í nágrannalöndunum. Það að stunda vændi til framfærslu er refsivert á Íslandi einu Norðurlandanna, það er sem sagt fórnarlambið, þolandinn sem er látinn sæta refsingu en gerandinn er laus allra mála. Það fólk sem hefur neyðst út í þá ógæfu að selja líkama sinn og langoftast er um nauðung að ræða, er sett í hlutverk þess sem fremur refsivert athæfi en ekki öfugt.

Hér fyrir þinginu liggur frv., herra forseti, og reyndar endurflutt þar sem lagt er til að þessu sé snúið við. Við flutningsmenn þess hljótum að ætlast til þess, þar sem málin eru nú komin á dagskrá með þeim hætti sem raun ber vitni, að þetta þingmál fái efnislega og faglega umfjöllun. Annað væri óeðlilegt og ég bind við það vonir, herra forseti, að frv. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að fara hina svonefndu sænsku leið og færa ábyrgðina og refsinguna yfir á herðar geranda málsins en ekki fórnarlamba og þolenda fái efnislega afgreiðslu með einhverjum hætti á þessu þingi.