Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:54:32 (6006)

2001-03-27 13:54:32# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og fleiri þingmenn þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli í utandagskrárumræðu og þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þá skýrslu sem við ræðum einnig hér.

Í máli hæstv. dómsmrh. kom fram að ákvörðun hefði verið tekin um að skipa nefnd sem mundi fjalla um þessi mál og skoða þau út frá þverfaglegum sjónarmiðum, eins og hæstv. ráðherra komst að orði. En ég held líka, virðulegi forseti, að við þurfum að átta okkur á því hvaða markmið við höfum með slíkri nefndarskipan og hvað við ætlum að fá út úr henni. Er hugmyndin hugsanlega sú að reyna að koma í veg fyrir að hér verði stundað vændi? Ég held að slík markmið séu óraunhæf og ég held að miklu eðlilegra sé að reyna að nálgast þetta, eins og hér hefur reyndar verið gert í umræðunni, á þeim grunni að um félagslegt vandamál sé að ræða en ekki á þeim grunni að hægt sé að leysa þau með einhvers konar ákvæðum í almennum hegningarlögum eða hertum refsingum. Ég hef sjálfur takmarkaða trú á því að sú leið sé fær og ég held jafnvel að það sé miklu eðlilegra að menn afkríminalíseri þessa hegðan í stað þess að reyna að beita harðari refsingum sem ég hef sáralitla trú á. Enda er það svo að vændi hefur verið stundað um langt skeið og oft og tíðum er talað um elstu atvinnugrein mannsins. Það er því mjög óeðlilegt að ímynda sér að hægt sé að koma í veg fyrir vændi hér á landi frekar en annars staðar.

Hins vegar, virðulegi forseti, vil ég ítreka að einn alversti þátturinn í þessu öllu saman er mansalið. Kannski er eina leiðin okkar í þeim efnum frekara alþjóðasamstarf og kannski verður það þannig að Schengen-samstarfið muni hjálpa okkur mjög í þeim efnum.