Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:35:43 (6099)

2001-03-28 14:35:43# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að koma upp með efni sem gengur undir heitinu þögla hættan. Ástæðan fyrir því að sílikonpúðar í brjóstum hafa fengið heitið þögla hættan er einfaldlega sú að það er ótrúlegur fjöldi kvenna, og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið eru margar erlendis sem hafa farið í brjóstastækkun og það hefur komið í ljós að stór hluti þessara sílikonpúða lekur og veldur óþægindum.

Ég vil að það komi fram að mér finnst mikilvægt að þessi upplýsingabæklingur sem búið er að tala um í mörg ár verði gefinn út og að það verði gefnar leiðbeinandi leiðbeiningar til lýtalækna að setja ekki púða í brjóst hjá stúlkum sem eru yngri en 20--21 árs nema ástæðan sé undirliggjandi sjúkdómar. Brjóstin eru ekki fullþroskuð fyrr en á þessum aldri. Það má líka bæta því við að andlegur þroski kvenna til að taka svo stóra ákvörðun og standa á henni og meta þær hættur sem liggja að baki ígræðslu silikonpúða er varla nægilegur fyrr en á þessum aldri.