Viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:19:18 (6119)

2001-03-28 15:19:18# 126. lþ. 101.9 fundur 578. mál: #A viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að fjölmörg ríki beina sjónum sínum meira og meira að vind- og sólarorku. Benda má á að menn sjá fyrir sér að í framtíðinni sé vel hugsanlegt að menn geti nýtt sólarorku, t.d. í Afríku. Frændur okkar Danir hafa verið mjög framarlega í sambandi við að virkja vind með vindmyllum. Bandaríkjamenn hafa líka áform uppi um að auka notkun vindorku. Mjög mikil þróun er yfirstandandi núna varðandi þessa nýju orkugjafa.

En við höfum verið svolítið öðruvísi sett vegna þess að við erum heimsmeistarar í að nýta endurnýjanlegan orkugjafa í dag. Við stöndum okkur svo vel að ekki hefur verið mikill hvati til að skoða vind- og sólarorku.

Varðandi það sem kom fram að öðru leyti í umræðunum og sérstaklega spurningu sem kom til umhvrh. um stefnu bandarískra stjórnvalda, þá er það rétt að Ísland hefur verið aðili að svokölluðum regnhlífarhópi á vettvangi Kyoto-bókunarinnar, ásamt Bandaríkjunum og Kanada, Ástralíu, Rússlandi og Noregi, svo einhver ríki séu tínd til. Ég ég get ekki alveg séð fyrir mér núna hvaða áhrif hugsanleg stefnubreyting Bandaríkjanna hefur á það ferli sem er fram undan. Við vorum mjög nálægt því í Haag að ná niðurstöðu. Það braut á á milli Bandaríkjamanna, hugsanlega má segja, og Evrópusambandsins. Það er ómögulegt að svara því hér og nú hvaða áhrif þessi hugsanlega stefnubreyting Bandaríkjamanna hefur á ferlið. En ég vona svo sannarlega að okkur takist sem fyrst að koma Kyoto-bókuninni í framkvæmd.