Eftirlit með matvælum

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:23:09 (6121)

2001-03-28 15:23:09# 126. lþ. 101.10 fundur 579. mál: #A eftirlit með matvælum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Munu Íslendingar koma að starfi Matvælastofnunar Evrópu samkvæmt EES-samningnum?``

Því er til að svara að Ísland er ekki skuldbundið samkvæmt EES-samningnum til þátttöku í starfi væntanlegrar Matvælastofnunar Evrópu. Ísland hefur lýst yfir áhuga á þátttöku í starfi stofnunarinnar, ásamt öðrum EFTA-þjóðum og gert athugasemdir við drög að nýrri reglugerð Evrópusambandsins þar sem kveðið er á um stofnun Matvælastofnunar Evrópu, EFA. Í athugasemdunum er lögð áhersla á að EFTA-þjóðunum sé tryggð aðkoma að starfi Matvælastofnunar Evrópu á sama hátt og Ísland hefur aðkomu að EMEA, European Medicin Evaluation Agency. Sú aðkoma felst m.a. í að sækja fundi, fylgjast með þróun mála, koma sjónarmiðum Íslands á framfæri og þátttöku í vinnuhópum og vísindanefndum. Þátttaka Íslands í væntanlegri stofnun og starfi Matvælastofnunar Evrópu gæti falið í sér verulegan ávinning fyrir matvælamál á Íslandi.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er læknisfræðileg þekking nýtt í eftirliti með mat hér á landi?``

Landlæknir er ráðgjafi umhvrh. um málefni á sviði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Héraðslæknir eða sá heilsugæslulæknir sem hann tilnefnir er ráðgjafi og heilbrigðisnefndum til aðstoðar um heilbrigðisþjónustu. Héraðslæknir á seturétt á fundum heilbrigðisnefndar með málfrelsi og tillögurétt. Héraðslæknir getur krafist þess að haldinn sé fundur í heilbrigðisnefnd. Margir heilbrigðisfulltrúar eru dýralæknar sem hafa þekkingu á smitsjúkdómum sem berast milli manna og dýra. Einnig starfa næringarfræðingar að matvælaeftirliti á vegum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og hjá Hollustuvernd starfar einnig næringarfræðingur.

Þegar upp koma hópsýkingar vegna matvæla er unnið samkvæmt sóttvarnalögum. Sóttvarnalæknir annast faraldsfræðilegar rannsóknir í þeim tilfellum. Stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir starfar samkvæmt sóttvarnalögum. Samkvæmt framansögðu er ljóst að læknisfræðileg þekking er nýtt vegna matvælaeftirlits hér á landi.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Telur ráðherra að eftirlit með matvælum hér á landi sé nægilegt?``

Matvælaeftirlitið hér á landi er á margan hátt sambærilegt og það sem gerist erlendis. Hins vegar höfum við séð að það hafa komið upp alvarlegar sýkingar, alvarleg tilfelli hér. Ég vil benda á að þegar kampýlobakter-faraldurinn svokallaði kom upp hér á landi vorum við með miklu hærri sýkingartíðni en í nokkrum öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Ég tel að matvælaeftirlit sé almennt í ágætu lagi á Íslandi. En ég tel að það sé ekki nógu vel staðið að stjórnsýslunni. Það er vegna þess að matvælaeftirlitið, stjórnsýslulega séð, skiptist á milli þriggja ráðuneyta, þ.e. umhvrn., landbrn. og sjútvrn. og stofnana á snærum ráðuneytanna, þ.e. Hollustuverndar ríkisins, yfirdýralæknis og Fiskistofu. Síðan er eftirlitið líka á hendi sveitarfélaganna þannig að það er líka tvískipt milli ríkis og sveitarfélaga.

Það er alveg ljóst að þessi stjórnsýsla skapar gífurlega mörg grá svæði. Ég held að við höfum upplifað það sterklega, þegar kampýlobakter-sýkingarnar komu upp, hvað þessi svæði voru grá og óskýr og hvað hægt væri að bæta stjórnsýsluna mikið í sambandið við matvælaeftirlitsmál ef hún væri einfölduð og gerð skilvirkari.

Umhvrh. lagði til í ríkisstjórninni að nefnd forsrn., um opinbera eftirlitsstarfsemi, tæki þessi mál upp og skoðaði hvernig væri hægt að einfalda og gera matvælaeftirlitið skilvirkara þannig að hagsmunir neytenda væri betur tryggðir. Ríkisstjórnin er að skoða þau mál núna. Ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. En það er mitt mat að mikilvægt sé að sameina matvælaeftirlitið frá þremur ráðuneytum, annaðhvort til eins ráðuneytis eða tveggja og taka skref í þá átt að gera stjórnsýsluna miklu einfaldari.

Það er líka hugsanlegt að matvælaeftirlitið færi frá sveitarfélögunum til ríkisins en ég tel að það sé seinni tíma mál. Það sé miklu mikilvægara að byrja á því að skoða hvort ekki sé eðlilegt að ráðuneytin einfaldi tengslin sín á milli til að bæta stjórnsýsluna varðandi matvælaeftirlitið.