Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:59:09 (6133)

2001-03-28 15:59:09# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það sem fram hefur komi er þetta. Gerður hefur verið samningur sem kostar skattborgarann að lágmarki 14% meira en samningar við sambærilegar stofnanir eða stofnanir sem sinna sambærilegri þjónustu. Engin rök hafa komið fram fyrir því að kostnaður vegna vistmanna á vegum Öldungs hf. ætti að vera meiri en hjá öðrum aðilum. Ef sjúklingar yrðu þyngri þar, eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh., þá aukast greiðslur úr ríkissjóði. Samanburður skýrslu Ríkisendurskoðunar byggir á sambærilegri hjúkrunarþyngd. Þetta ætti hæstv. fjmrh. að kynna sér. Þá eru greiðslur til Öldungs hf. allar verðtryggðar og endurgreiðslur vegna t.d. mikils lyfjakostnaðar tryggðar, gagnstætt það sem gerist hjá öðrum stofnunum.

Ríkisendurskoðun hefur staðfest að munurinn á greiðslum til Öldungs hf. og annarra byggist á því að Öldungur hf. þurfi að sjá eigendum sínum fyrir gróða, ekki veita betri þjónustu.

Þegar samningurinn við Öldung hf. og aðrir ámóta samningar eru skoðaðir er eðlilegt að ýmsar spurningar vakni, t.d. um það hvers vegna þetta fyrirtæki sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka og Securitas fái þá meðhöndlun sem raun ber vitni, samning sem mun veita eigendum sínum vísan gróða. Ekki kemur vörnin frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarnefndinni, þar sitja menn sem eru sjálfir nátengdir einkavæðingarbraskinu. Einn nefndarmanna af fjórum er þannig stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka, fyrirtækisins sem kemur til með að reka og er nú að reisa Sóltún 2.

Ekki kemur vörnin fyrir skattborgarana frá hæstv. heilbrrh. eða frá hæstv. fjmrh. sem við umræðuna hafa verið beðin um að skýra hvers vegna einkaframkvæmdarsamningur er gerður við fyrirtæki þegar fyrir liggur að hann er miklu óhagstæðari en aðrir kostir sem bjóðast.

Herra forseti. Það er vissulega mikilvægt að beina meira fjármagni til öldrunarþjónustunnar. En þá er það lágmarkskrafa að það sé gert á samfélagslega ábyrgan hátt og án þess að aldraðir og sjúkir og samfélagið allt sé gert að gróðalind fyrir fjárfesta á markaði.