Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:33:24 (6137)

2001-03-29 10:33:24# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna yfirlýsingar hæstv. forsrh. gagnvart Þjóðhagsstofnun en eins og þjóð veit hefur hæstv. ráðherra verið þunghöggur í garð stofnunarinnar síðustu dægur. Það má segja að yfirlýsingar hans í hennar garð hafi sannarlega vakið óskipta furðu.

Tildrög málsins voru að stofnunin birti skýrslu þar sem bent var á að þrátt fyrir að margt jákvætt væri í þjóðarbúskapnum þá væri viðskiptahallinn vaxandi vandamál sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir framvindu efnahagslífsins. Hæstv. forsrh. gat ekki dulið gremju sína yfir því að opinber stofnun skyldi með þessum hætti dirfast að hafa aðra skoðun en hann á stöðu efnahagsmála. Hann átaldi stofnunina opinberlega fyrir að dansa ekki í takt við valsinn sem ómaði út um glugga Stjórnarráðsins. Hæstv. forsrh. klykkti síðan út með því að segja að stofnunin væri óþörf og hún mætti alveg missa sín.

Er það tilviljun, herra forseti, að þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. um að stofnunin megi missa sín komi í kjölfar þess að hann átelur stofnunina harðlega opinberlega fyrir glannalegt orðalag og ályktanir sem honum líkar ekki? Ég held að það sé augljóst, herra forseti, að þarna er hæstv. forsrh. að mæla stofnuninni út refsingu fyrir að rispa glansmyndina sem hæstv. forsrh. hefur ítrekað dregið upp og enginn má andmæla. Það er heldur ekki vansalaust, herra forseti, að starfsmenn stofnunarinnar fái tilkynningu um það í gegnum fjölmiðla að leggja eigi stofnunina niður. Svona gera menn ekki, hæstv. forsrh.

Í ljósi þessara ummæla finnst mér að upplýsa þurfi þingið um tvennt: Í fyrsta lagi, fyrst hæstv. utanrrh. og útnefndur varaforsrh. er staddur hérna þarf hann auðvitað að upplýsa hvort Framsfl. og forusta hans ætli að taka þátt í þessum refsileiðangri á hendur Þjóðhagsstofnun. Í öðru lagi, í ljósi ummæla hæstv. forsrh., þarf að koma hér fram hvort þess sé að vænta að í kjölfarið muni koma fram á þessu þingi frv. um að leggja Þjóðhagsstofnun niður.