Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:50:49 (6154)

2001-03-29 11:50:49# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er hægt að koma inn á alla hluti og menn verða að velja úr í ræðu sinni. Það þurfum við líka að gera sem blöndum okkur í umræðuna og ég hefði svo sannarlega viljað koma inn á marga fleiri þætti.

Ég var auðvitað að benda á áherslur ráðherrans í síðustu umræðu. Ég veit að flokkur ráðherrans hefur sett á laggir starfshóp um Evrópumál sem hefur skilað skýrslu. Það er minn flokkur líka að gera til að undirbyggja þátt sinn í faglegri umræðu þegar þar að kemur. Ég er að vekja athygli á því að þetta er að gerast á vettvangi flokkanna sjálfra og að sú umræða sem hér fór fram á sínum tíma um að opna umræðuna um EES-samninginn hefur ekki orðið á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ég er fyrst og fremst að benda á það í stuttri umræðu en ætla að öðru leyti ekki inn í neina frekari umræðu um Evrópumál.

Ég er ánægð að heyra viðbrögð ráðherrans varðandi erlenda fjárfestingu og ég geri mér alveg grein fyrir því að þau mál eru viðkvæm. En það er heldur ekki nógu gott ef við erum hér ár eftir ár að tala um hvað þurfi að koma til, því að við höfum lagt á okkur til að koma á alþjóðasamstarfi til þess að opna ný tækifæri. Ég er alveg sannfærð um að fátt hefur gert eins mikið fyrir atvinnulíf okkar og tilkoma EES-samningsins á sínum tíma sem ég trúði mjög á og vann að og ég er alveg sannfærð um að bæði störf og tækifæri sem orðið hafa til eru honum að þakka en það á eftir að gera ýmislegt meira. Eitt af því er að skoða erlendar fjárfestingar, að þær virki í báðar áttir. Við getum ekki lengi verið bara að ræða þau mál án þess að taka á þeim og setja þau lög sem mikilvægt er að setja hér.