Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:12:45 (6195)

2001-03-29 15:12:45# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram í dag um utanríkismál. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki hefur verið tími til að ræða mörg mál. En það eru nokkur atriði sem beint hefur verið sérstaklega til mín sem ég ætla að gera að umtalsefni á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða. Það eru loftslagsmálin, málefni Íraks, varnarsamstarfið og málefni Palestínu.

Ég vil fyrst segja út af loftslagsmálunum að þær aðstæður sem nú hafa skapast vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum hefur engu breytt um stefnu okkar Íslendinga í þessum máli. Við höfum miklu frekar styrkst í þeirri trú að við höfum verið á réttri leið í þessum efnum og munum áfram berjast fyrir því að við getum haldið áfram að nýta endurnýjanlega orku okkar. Við teljum að það þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar, það þjóni þeim málstað sem verið er að berjast fyrir, að draga úr mengun í heiminum, og þess vegna beri að halda áfram á sömu braut.

[15:15]

Síðasti fundur regnhlífarhópsins svokallaða var haldinn í Wellington 20.--23. mars. Þar kom fram að það ríkti allmikil óvissa vegna þess að Bandaríkjastjórn væri að endurskoða stefnu sína og ég tel að það ferli sé enn í gangi. Þá lá fyrir að tekinn var til starfa vinnuhópur undir forsæti varaforseta Bandaríkjanna til þess að marka nýja orkustefnu. Það þykir mjög líklegt að sú stefna, þegar hún sér dagsins ljós, verði hliðholl áframhaldandi áherslu á notkun jarðeldsneytis. Hins vegar er rétt að geta þess að ekki hefur verið alger samhljómur í málflutningi þeim sem komið hefur frá Bandaríkjunum upp á síðkastið, t.d. hefur fjármálaráðherrann, O'Neil, talað mjög jákvætt í loftslagsmálum að því er varðar Kyoto-samkomulagið og byggir þar m.a. á reynslu sinni sem fyrrverandi forstjóri Alcoa sem er eitt af stærstu álframleiðslufyrirtækjum í heiminum.

Forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, Christie Whitman talaði einnig á þessum nótum á fundi umhverfisráðherra átta helstu iðnríkja heims í Trieste fyrr í mánuðinum þó að á margan hátt sé óljóst hvert sé vægi forstjórans í þeirri stefnumörkum sem nú á sér stað.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það veldur vonbrigðum víða um heim ef Bandaríkjamenn ætla að heltast úr lestinni. Þeir hafa hins vegar tekið fram að þeir vilji vinna áfram af sinni hálfu í baráttunni gegn loftmengun og ég vænti þess að við það verði staðið. Við því má búast að þessi stenfubreyting þýði ákveðið bakslag í því samningaferli sem hefur átt sér stað þó erfitt sé að sjá það fyrir á þessari stundu.

Þau ríki sem þarna hafa ráðið mestu um framvinduna eru ríki Evrópusambandsins, stærri ríki eins og stærstu iðnríki heims, t.d. Japan og fyrir liggur að á næstunni munu eiga sér stað viðræður milli þessara aðila til þess að átta sig á því hvernig þessu samningaferli verði komið á réttan kjöl ef Bandaríkjamenn ætla algerlega að endurskoða sína afstöðu.

Ég tel hins vegar ekki rétt að fullyrða allt of mikið á þessu stigi. Þessi mál verða ekki leyst nema með samningum milli þjóða og Bandaríkjamenn hafa m.a. gefið það upp sem ástæðu fyrir sinni afstöðu að það sé ekki nægilega almenn þátttaka meðal ríkja heims í þessu ferli og þá vanti að tryggja með ákveðnari hætti þátttöku þróunarríkjanna í þessu ferli í framtíðinni.

Að því er varðar málefni Íraks þá er í sjálfu sér ekki mjög miklu við það að bæta sem ég hef áður sagt. Við höfum stutt Norðmenn með afgerandi hætti í viðleitni þeirra til þess að finna nýjar leiðir í þessu máli. Það verður hins vegar að hafa það í huga þegar talað er um Noreg í þessu sambandi að stærstu þjóðir heims sem hafa verið í fararbroddi í þessu máli, eins og Bandaríkin og ríki Evrópusambandsins, fóru þess á leit við Norðmenn að þeir tækju frumkvæði í þessum málum og ynnu að því að fara nýjar leiðir í samráði við aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna og Norðmenn eru nú að gera það. Þetta sýnir það, eins og hér hefur komið fram, að Norðmenn njóta trausts og ég tel að það hafi verið mjög gott að þeir hafi tekið þetta að sér. Það gerist m.a. vegna þess að þeir eiga aðild að öryggisráðinu og þeir eru tilbúnir til þess að nýta mannafla og fjármagn í þessu skyni og hafa þegar varið 350 millj. kr. til þessa verkefnis.

Það sem hefur komið fram af þeirra hálfu fram að þessu eftir mjög ítarlega skoðun á þessu máli er að það þurfi að fækka þeim samningum sem viðskiptabannsnefndin situr á og afgreiðir ekki. Þeir telja sig hafa komist að því að flestir þessara samninga varði útflutning á vörum til Íraks en nýtist ekki við vopnaframleiðslu og þess vegna sé ástæða til að fækka á þessum lista. Þeir telja líka að það þurfi að stækka þann vörulista samkvæmt ,,olíu fyrir mat`` áætluninni sem ekki þurfi að sækja um útflutningsleyfi á til viðskiptabannsnefndarinnar. Og þeir telja að unnt sé að stytta þann lista yfir vörur sem bæði er unnt að nota í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi. Það eru svokallaðar ,,dual-use``-vörur. Ég veit ekki hvernig á að þýða það á íslensku. Það eru sem sagt vörur til tvíhliða nota sem eru á þessum listum.

Rétt er að taka það fram að í viðræðum við Bandaríkjamenn hefur Powell utanríkisráðherra tekið þessum hugmyndum vel og hann hefur lagt á það áherslu á alþjóðavettvangi, m.a. í þeim umræðum sem hafa átt sér stað innan Atlantshafsbandalagsins, að viðskiptabannið eigi að beinast gegn harðstjóranum, gegn gereyðingarvopnunum, en ekki gegn fólkinu. Þannig hefur þetta viðskiptabann alltaf verið hugsað. En það þarf að hafa í huga að hér er um að ræða viðskiptabann af hálfu Sameinuðu þjóðanna og aðildarríki Sameinuðu þjóðanna þurfi að sýna samstöðu í þessu máli og þurfa að leita sameiginlega að úrlausnum og það erum við að gera nú undir forustu Norðmanna. Þetta gefur okkur Íslendingum tækifæri til þess að koma að þessu máli m.a. í gegnum Norðurlandasamvinnuna og við höfum stutt Norðmenn í þessu sambandi af heilum hug.

Ég tek undir það með hv. þm. sem hér hafa talað að ástandið í Palestínu er afskaplega alvarlegt og ekki er hægt að hafa of sterk orð um það alvarlega ástand sem þar er. Hins vegar veit ég að hv. þm. er það jafn vel ljóst og mér að þar er um afskaplega flókið mál að ræða sem gengur út á það að tryggja öryggi palestínsku þjóðarinnar til framtíðar en jafnframt að skapa stöðugleika í Ísrael og Miðausturlöndum almennt. Að mínu mati hefur það lítið upp á sig að vera með fordæmingar í þessu sambandi þó að ég sé sammála því að Ísraelsmenn hafi oft og tíðum beitt mikilli hörku og óþarfri hörku í þessu máli. Mér er hins vegar ljóst að ekkert getur leyst þetta mál nema gagnkvæmir samningar þess fólks sem þarna lifir og þrátt fyrir allt eru slíkar friðarumleitanir enn þá í gangi og ég trúi því að ísraelska þjóðin muni leggja sig fram um að finna þarna lausn því auðvitað á hún mikið undir í þessu sambandi. Það er ekki aðeins Palestína heldur líka framtíð ísraelsku þjóðarinnar.

Þetta mál á eftir að taka langan tíma og ekkert bendir til þess nú, því miður, að varanlegur friður sé að komast á. En að mínu mati er mikilvægast af öllu að koma samningaferlinu í gang þar sem frá var horfið fyrir ríkisstjórnaskiptin og sem betur fer hefur hinn harðskeytti forsætisráðherra sem nýlega er tekinn við sýnt meiri vilja en maður hefði talið í upphafi miðað við hans fyrri yfirlýsingar þó ég ætli ekki að fullyrða neitt um það á þessu stigi. Við höfum haft tækifæri til þess að fylgjast vel með þessu máli í gegnum starfsbræður okkar á Norðurlöndunum sem að sjálfsögðu hafa miklu betri aðgang að því en við Íslendingar höfum m.a. vegna beinnar þátttöku þeirra og sendiráða sem þeir hafa á þessu svæði.

Herra forseti. Aðeins að lokum vil ég fagna því að þingmenn taka undir að Íslendingar hafa ákveðið að bjóða sig fram til setu í öryggisráðinu. Það er m.a. lykillinn að því að við komumst til meiri áhrifa í alþjóðamálum, lykillinn að því að við getum haft meiri áhrif á mál sem hv. þm. leggja áherslu á. En það gerum við ekki nema taka fullan þátt í samstarfi þessara þjóða og vera tilbúnir til að vera í öryggisráðinu.

Um varnarsamstarfið er það að segja að viðræður milli Íslands og Bandaríkjanna eru ekki hafnar og ekki hefur verið ákveðið hvenær þær hefjast. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnaskiptin í Bandaríkjunum hafa skapað að því leytinu til nýjar aðstæður að þar er komið nýtt fólk sem þarf að setja sig inn í mál. Við höfum sýnt fulla þolinmæði og bíðum eftir því að þjóðirnar komist að sameiginlegri niðurstöðu um það hvenær þessar viðræður verði.

Ég get í sjálfu sér ekki sagt meira um þetta mál því að það er ekkert nýtt í því. Við munum leggja á það áherslu í þessum viðræðum að varnir landsins verði tryggðar áfram. Við teljum þörf á ákveðnum lágmarksvörnum til að tryggja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og að þess vegna sé varnarsamningurinn og aðildin að Atlantshafsbandalaginu grundvallaratriði í þeirri tryggingu sem við þurfum þannig að hér séu góðar varnir, traustvekjandi varnir þannig að íslenska þjóðin geti búið við fullt öryggi. Ég treysti því að þetta samstarf haldi áfram eins og það hefur gert í 50 ár og við munum minnast þess í byrjun maí að 50 ár eru liðin frá því að Ísland og Bandaríkin tóku upp mjög farsælt varnarsamstarf.