Norræna ráðherranefndin 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:00:36 (6201)

2001-03-29 16:00:36# 126. lþ. 102.2 fundur 543. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2000# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það hefur verið lögð áhersla á verndun náttúru- og menningarminja á norðurheimsskautssvæðunum. Það kemur fram í kaflanum Vinnunefnd um náttúruvernd, útivist og menningarumhverfi. Þau verkefni sem unnið er að samkvæmt áætluninni eru m.a. Staðardagskrá 21, náttúruvernd og ferðaþjónusta, umhverfisfræðsla og áhrif botnvörpu- og togveiða á lífríki sjávar.

Ég vil koma því að í stuttu andsvari, fyrst hér var lögð fram spurning til mín varðandi Árneshreppinn, að Landvernd hefur kynnt þetta verkefni í umhvrn. Það eru margir kostir við það verkefni, að reyna að hlúa menningarsamfélagi. Hugmyndin var að gera það m.a. með því að styrkja veiðar, landbúnað, samgöngumál o.s.frv., þannig að þetta er mjög þverfaglegt verkefni. Upp í hugann koma hins vegar ýmsar spurningar eins og hvað menn geri við önnur svæði. Er í lagi að taka eitt svæði út? Það má vel vera að það sé í lagi. Ég veit að málið hefur fengið einhvers konar kynningu frá Landvernd í forsrn. og það er verið að skoða þetta verkefni. Það er ekki komin niðurstaða.