Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 13:46:38 (6255)

2001-04-03 13:46:38# 126. lþ. 104.22 fundur 540. mál: #A almenn hegningarlög# (kynlífsþjónusta, klám) frv., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu --- mér liggur við að segja loksins --- frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flutningsmenn frv. eru auk mín hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman.

Tilefni þessa frv. ætti að vera öllum ljóst en það má að sjálfsögðu rekja til þeirrar umræðu sem farið hefur fram að undanförnu um klám og vændi í íslensku samfélagi og þeirrar kröfu sem heyrist hátt úti í samfélaginu nú orðið, að mikilvægt sé að nú þegar verði brugðist við þeim breyttu aðstæðum sem við búum við og hér hafa skapast á síðustu missirum.

Viðbrögð stjórnvalda við þessum umræðum hafa verið þó nokkur. Hæstv. dómsmrh. Sólveig Pétursdóttir hefur látið vinna tvær skýrslur um málið. Annars vegar skýrslu um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi og vændi. Hin skýrslan, sem er nýútkomin og var rædd hér í utandagskrárumræðu á Alþingi fyrir skemmstu, heitir Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess og er áfangaskýrsla.

Hæstv. samgrh. hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar vegna þessarar umræðu. Hann lagði hér á síðasta þingi fram frv. til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði. Eins og menn rekur minni til hafði það frv. að geyma breytingar á lögum sem áttu að gera sveitarfélögum það kleift að takmarka eða koma reglum yfir starfsemi skemmtistaða, t.d. nektarstaða sem við þekkjum og umræðan hefur að miklu leyti snúist um.

Í þriðja lagi má nefna það sem hæstv. félmrh. hefur gert í málinu. Hann lagði á síðasta þingi fram frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt þeim reglum sem höfðu gilt og þeim lögum sem þá höfðu gilt voru útlendingar sem gegndu tilteknum störfum undanþegnir atvinnuleyfi. Undir það undanþáguákvæði heyrðu listamenn og höfðu nektardansarar komið til landsins á því undanþáguákvæði þar til hæstv. félmrh. fékk þessum lögum breytt. Þá hættu þeir sem komu að dansa á nektarstöðum að flokkast undir starfsheitið listamaður. Reyndar gerði hv. félmn. talsverðar breytingar á frv. félmrh. þar sem því var bætt við að þeir sem kæmu fram á næturklúbbum ættu ekki rétt á að flokkast undir starfsheitið listamaður.

En hvernig hafa þessar ráðstafanir sem hæstv. samgrh. og hæstv. félmrh. gripu til reynst í baráttunni gegn vændi og öðrum þáttum kynlífsiðnaðarins? Að mati þeirrar sem hér stendur hafa þessar aðgerðir ekki reynst nógu vel. Til marks um það er sú staðreynd að á fyrstu fjórum mánuðunum eftir breytinguna á lögunum um atvinnuréttindi útlendinga voru gefin út 142 atvinnuleyfi fyrir nektardansara frá svæðum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það þarf trúlega ekki að grafa djúpt til að komast að því að umtalsverður hópur þeirra kvenna kemur frá löndum Austur-Evrópu.

Herra forseti. Þá er rétt að spyrja: Hlustuðum við ekkert á ákall Vairu Vike-Freiberga, forseta Lettlands, þegar hún ávarpaði alþjóðlegu kvennaráðstefnuna sem hér var haldin í Reykjavík haustið 1999. Á þetta ákall er minnt í nýútkominni skýrslu, Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þá vakti ákall Vaira Vike-Freiberga, forseti Lettlands, athygli á þessum málum á alþjóðlegri kvennaráðstefnu sem haldin var á Íslandi haustið 1999.`` --- Þar var mansal til umfjöllunar. --- ,,Hún lýsti skelfilegu ástandi í Eystrasaltslöndunum þar sem skipulagður útflutningur kvenna til Vesturlanda ætti sér stað, ekki síst til Norðurlanda.

Í skýrslu nefndar um afnám mismununar gegn konum, sem kynnt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september árið 1999, var ályktað að hátt á annað hundrað þúsund konur og börn frá löndum Austur-Evrópu hafi leiðst út í vændi ár hvert það sem af var þeim áratug. Þessari verslun með fólk hefur verið líkt við nútímaþrælasölu.``

En í skýrslu dómsmrh., herra forseti, er líka minnst á skýrslu Hansínu B. Einarsdóttur, sem út kom 1985 og hefur að geyma niðurstöður rannsóknar Hansínu sem fjallaði um vændi. Hún tók viðtöl við einstaklinga sem höfðu stundað vændi á Íslandi og niðurstöður hennar sýndu að um þrjár gerðir vændis væri að ræða hér í samfélagi okkar: vændi tengt ungu fólki í vímuefnaneyslu, skipulagt vændi og vændi þar sem ungar stúlkur auglýstu í smáauglýsingum dagblaðanna og buðu upp á ,,fínni og dýrari þjónustu``.

Í hnotskurn má segja að niðurstaða rannsóknar Hansínu B. Einarsdóttur sé algjörlega samhljóða niðurstöðu hinnar nýju skýrslu, Vændi á Íslandi. Þá má líka minna á grein Áshildar Bragadóttur sem birt var í Veru á síðasta ári og vakti verðskuldaða athygli. Í grein Áshildar er að finna fimm skilgreiningar á vændi sem fullyrt er að stundað sé hér á landi. Í fyrsta lagi kemur fram að hér á landi séu starfrækt vændishús þar sem einn aðili stjórnar starfseminni, tekur á móti pöntunum og útvegar viðskiptavinum hold, eins og segir í greininni. Vændið fer ýmist fram innan veggja vændishússins, á hótelum, vinnustöðum viðskiptavinarins eða á heimili hans. Í öðru lagi kemur fram í grein Áshildar að eigendur eða rekstraraðilar ákveðinna veitingahúsa hafi tekið að sér að vera milliliðir viðskiptavinarins og þess sem selur sig. Í þriðja lagi er nefnd svokölluð fylgdarþjónusta. Í fjórða lagi er talað um vændi þar sem karlmenn gera skipulega út á konur. Í fimmta lagi kemur fram í þessari áðurnefndu grein Áshildar Bragadóttur að hér á landi þrífist það sem hún nefnir tilviljanakennt götuvændi.

Sem sagt, herra forseti, allar vísbendingarnar í skýrslunni sem við nú höfum fengið í staflann voru til staðar fyrir 16 árum nema hvað við þær hefur bæst klám og kynlífsþjónusta um síma og gegnum internetið. Landssíminn, herra forseti, innheimtir gjöldin fyrir þá þjónustu auk þess sem hann dreifir nú klámefni á breiðbandinu og hæstv. menntmrh. hefur svarað því í fyrirspurnatíma hér á Alþingi að hann sjái ekki ástæðu til að beita sér fyrir því að Kvikmyndaeftirlitið geri eitthvað í málinu.

Herra forseti. Hafa breytingar samgrh. á lögunum um veitinga- og gististaði einhverju breytt? Nei, þær hafa engu breytt. Allir nektarstaðirnir sem voru þá við lýði eru það enn. Þó þeim hafi öllum verið gert skylt samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna að sækja um ný rekstrarleyfi þá kemur fram í fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. samgrh. fyrir skemmstu að einungis embætti sýslumannsins í Kópavogi hafi aðhafst eitthvað í málinu. Í Kópavogi var sent út bréf til allra rekstraraðila veitingastaða í umdæmi sýslumannsins þar sem lagabreytingin var kynnt og skorað á þá að sækja á ný um veitingaleyfi teldu rekstraraðilar að reksturinn félli undir 9. gr. laga nr. 67 frá 1985, sbr. 2. gr. laga frá 9. maí 2000. Aðeins einn staður í Kópavogi sótti um leyfi á ný.

Reykjavík mun hafa endurskoðun á þessu fyrirkomulagi á stefnuskrá sinni. Það er talað um að slík endurskoðun komi til með að geta farið fram í maí en önnur sýslumannsembætti hafa ekkert aðhafst á málinu. Þetta er alvarleg staðreynd, herra forseti.

Sama ár og Hansína B. Einarsdóttir birti niðurstöður rannsóknar sinnar um vændi á Íslandi 1985 þá fullgiltu íslensk stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gagnvart konum. Árið 1993 undirrituðum við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám alls ofbeldis gagnvart konum. Nú síðast var undirritaður samningur fyrir Íslands hönd um aðgerðir gegn fjölþjóðlegri glæpastarfsemi, þar á meðal gegn sölu kvenna og barna til kynlífsþrælkunar. Það er alveg ljóst, herra forseti, að aðgerðir stjórnvalda á Íslandi þurfa að vera öflugri, virkari og meiri en þær hafa verið upp á síðkastið. Það sem við höfum fengið frá stjórnvöldum hefur ekki breytt neinu eða gefið okkur vísbendingar um að breytingar séu á næsta leiti.

Frv. sem hér er til 1. umr. er lagt fram í þeirri von að ástand þessara mála geti breyst til batnaðar. Markmið þess er að koma lögum yfir þá starfsemi sem hvetur til vændis og annars ofbeldis gagnvart konum. Já, við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að vændi er skilgreint sem ofbeldi. Við viljum sjá unga fólkið sem neyðist út í vændi vegna vímuefnaneyslu stutt til sjálfshjálpar. Við viljum leggja fátækum konum í Austur-Evrópu lið með öðrum meðölum en að fá þær fluttar hingað til lands svo að íslenskir karlmenn geti gamnað sér með þeim gegn greiðslu. Við viljum leggja niður klám- og vændisþjónustu þar sem kynlífsþjónusta fer fram á símalínum og interneti.

Frv. gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum frá því ástandi sem nú ríkir. Þannig væri samkvæmt því ekki lengur refsivert að stunda vændi, hvorki skyndivændi né vændi til framfærslu, heldur væri refsiábyrgðinni snúið við og snúið að þeim sem býr til eftirspurnina, þ.e. kaupandanum. Þannig gerir frv. ráð fyrir því að hver sem greiði fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Þá eru lögð til hert viðurlög við því að vera milliliður um vændi annarra og tekin eru af öll tvímæli um að refsivert sé að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til þess að stunda hvers konar kynlífsþjónustu.

Þá er lagt til að það varði við refsingu að stuðlað sé að því að fólk sé flutt úr landi eða til landsins í því skyni að það taki þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði, hvort sem viðkomandi er kunnugt um þennan tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki. Þetta ákvæði, herra forseti, er sambærilegt við það sem alþjóðasáttmálarnir beina til stjórnvalda, að samþykki viðkomandi fyrir svona flutningum sé ekki pappír upp á að allt sé í himnalagi.

Herra forseti. 1. gr. þessa frv. gerir einnig ráð fyrir því að hver sem býður upp á kynferðislegar nektarsýningar og hefur þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu skuli sæta allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu varðar það að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur.

Hvað varðar breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir á 210. gr. almennra hegningarlaga --- en þær breytingar sem ég gerði grein fyrir í 1. gr. eiga við 206. gr. --- er um að ræða hert viðurlög við því að birta klám á prenti. Gert er ráð fyrir að refsingin verði hækkuð um 6 mánuði, þ.e. úr gildandi 6 mánuðum í eitt ár.

Mig langar, herra forseti, satt að segja til að biðja hv. allshn., sem fær þetta mál að öllum líkindum til meðferðar, að gæta að því og ganga úr skugga um að orðalag greinarinnar nái einnig yfir aðra birtingu, svo sem á myndbandsspólum og geisladiskum.

Varðandi 2. gr. þá gengur niðurlagssetning hennar út á refsingu gegn þeim sem ábyrgur er fyrir að auglýsa í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi aðgang að klámi í hvaða mynd sem það er fram borið.

[14:00]

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir efni þessa frv. sem hefur legið hér fyrir í þinginu um nokkurn tíma, og af því að seinni grein frv. fjallar um klám þá vil ég lýsa því hér yfir að þingmenn þeir sem standa að frv. eru tilbúnir til að fara í umræðuna um skilgreiningu á klámi. Við fullyrðum, herra forseti, að það er ekki lengur forsvaranlegt að hafa í gildi ákvæði í lögum á Íslandi sem varða klám án þess að klám sé skilgreint.

Herra forseti. Skilgreining okkar er eftirfarandi: Við teljum klám vera auglýsingu og hvatningu um ofbeldi, og klám á í okkar huga ekkert skylt við erótík. Klám er efni sem sýnir kynlíf og/eða afhjúpuð kynfæri í tengslum við misnotkun og niðurlægingu þannig að slík hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel til hennar hvatt. Þessa skilgreiningu, herra forseti, verða þeir sem þurfa að framfylgja þessum lögum að temja sér, ef við getum orðið sammála um skilgreiningu af þessu tagi.

Herra forseti. Ég minni að lokum hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar á það að þeir hafa gefið út ótal yfirlýsingar og þeir hafa beitt sér fyrir ótal lagasetningum um jafnréttismál. Ég minni einnig á allar yfirlýsingarnar og frumvörpin sem liggja fyrir um barnavernd og réttindi barna, og, herra forseti, ég fullyrði að í landi þar sem jafnrétti ríkir, þar er ekki stundað vændi.