Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 14:45:28 (6262)

2001-04-03 14:45:28# 126. lþ. 104.23 fundur 558. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar o.fl.) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur gert grein fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi við frv. Það sem hefði verið mjög gaman að sjá og leiðir einmitt hugann að er í rauninni samantekt hjá öðrum verkalýðsfélögum en sjómönnum, farmönnum og fiskimönnum vegna þess sem hér hefur verið að gerast að í þeirri biðröð sem hefur verið t.d. hjá sáttasemjara eða annars staðar, eða í biðröð við samninganefnd ríkisins t.d., þá hafa félög í rauninni misst margra mánaða kauphækkanir af því þau hafa lent aftarlega í biðröðinni við samningsaðilana. Það væri því mjög gaman að kalla eftir upplýsingum um hversu lengi samningar hafa oft verið lausir hjá hinum og þessum stéttarfélögum.

Ég þekki þetta. Ég er ein af þeim sem hafa verið algjörlega andsnúnir því að setja lög á kjaradeilur. Ég þekki það líka af eigin raun frá því ég var formaður í stéttarfélagi mínu og lenti í lögunum hér á árum áður. Fyrir mér er þetta í rauninni hinn frjálsi réttur samningsaðila að ganga frá og ekki eigi að vera nokkur inngrip af neinum toga. Það verða aðilar að skilja og þá sérstaklega LÍÚ-menn sem hv. þm. talaði um áðan.

Því er mjög mikilvægt að í heildarsamningum sé það afturvirkt frá því samningar voru lausir en ekki frá þeim tíma þegar fólk sest að viðræðuborðinu. Það væri mjög gaman að fá frv. til meðferðar í hv. félmn. og ég vil ítreka að ég lýsi eindregnum stuðningi við þetta frv.