Lyfjatjónstryggingar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 15:24:09 (6267)

2001-04-03 15:24:09# 126. lþ. 104.24 fundur 208. mál: #A lyfjatjónstryggingar# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir það að flutt skuli frv. til laga um lyfjatjónstryggingar. Með lögum um sjúklingatryggingu sem við samþykktum hér í fyrra er ekki tekið á tjónum vegna lyfja og lyfjanotkunar. Tilgangur þeirra laga var að tryggja sjúklingum sem bíða heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð og fleira víðtækari rétt á bótum en þeir eiga samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera þeim auðveldara að ná rétti sínum. Eins og ég sagði þá ná lög um sjúklingatryggingu ekki til tjóns af völdum skaðlegra eiginleika lyfja sem notuð eru við rannsóknir eða við sjúkdómum.

Mér er því mjög kært að taka undir þetta frv. og ég vona að það fái góða afgreiðslu. Í því eru góðar skilgreiningar á því við hvað lyfjatjónstryggingin á og hvað ekki. Þetta eru eingöngu lyf sem Lyfjastofnun hefur samþykkt, hvort heldur þau eru lyfseðilsskyld eður ei og hvort sem lyfið er notað sem fyrirbyggjandi í meðferð eða rannsóknum. Þetta á einnig við um starfsfólkið sem meðhöndlar lyfin og verður fyrir heilsutjóni við meðferð þeirra sem gerist því miður stundum. Það getur verið erfitt að komast hjá því að komast í snertingu við efni sem annars eru ætluð sjúklingum.

Þar sem sönnunarbyrðin getur oft verið mjög erfið, einkennin óljós eða skaðinn komið fram síðar eins og þekkt er og nefnd voru dæmi um áðan, þar sem skaði á fóstrum kom ekki fram fyrr en mörgum árum síðar o.s.frv., þá geri ég mér grein fyrir því að meðferð þessara mála getur verið vandasöm. Því er mikilvægt að lagaumhverfið sé sem ljósast og það hvernig fara á með málin. Tryggingastofnun ríkisins er samkvæmt frv. falið að fara með tryggingarnar. Eins væri hægt að kaupa vátryggingu annars staðar. Sé vátrygging keypt hjá vátryggingafélagi þá er auðvitað mjög mikilvægt að farið sé varlega með allar persónupplýsingar og upplýsingar sem fram koma við málsmeðferðina.

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka þetta fram og koma því á framfæri að ég styð þetta frv.