Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 16:46:30 (6279)

2001-04-03 16:46:30# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. um breyting á dómstólalögum sem leggur til breytingu á skipan dómara í Hæstarétt. Frv. er endurflutt eins og fram hefur komið. Í greinargerðinni, sem er athyglisverð lesning, er m.a. fjallað um ríkisvaldið og þrígreiningu þess. Vitnað er í enska heimspekinginn John Locke, þ.e. í skilgreiningu hans á borgaralegu samfélagi og nauðsynlegu valdi sem þyrfti að fylgja stofnun þess. Það var einmitt í ritgerð hans um ríkisvaldið sem kom út í London 1649. Enn fremur er líka vitnað til franska stjórnvitringsins Montesquieus og þess getið að rót hugmynda Montesquieus er jafnan rakin til þeirra áhrifa sem hann varð fyrir meðan hann dvaldi á Englandi. Mér fannst rétt að draga þetta fram vegna þess að einmitt á Englandi er vagga þingræðisins. Það skiptir auðvitað máli að við lítum til þingræðisins þegar við ræðum um þetta mál, hv. þingmenn.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, 1. flm. málsins, óskaði eftir því að ég yrði viðstödd 1. umr. um frv. og að ég lýsti nokkuð viðhorfum mínum í því sambandi. Mér þykir því rétt að reifa ákveðin sjónarmið og staðreyndir í tengslum við þetta mál. Að sjálfsögðu fær frv. síðan viðhlítandi skoðun í hv. allshn. þingsins.

A.m.k. í tvígang á liðnum árum hafa verið lögð fram frv. af stjórnarandstöðu á þingi um breytt fyrirkomulag á vali dómara í Hæstarétt. Fyrra frv. var lagt fram af þingmönnum Alþýðubandalagsins árið 1993. Lagt var til að dómsmrh. legði fram tillögu sína um skipan hæstaréttardómara fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Sú tillaga var ekki samþykkt. Seinna frv. var lagt fram af nokkrum hv. þm. Samfylkingarinnar á síðasta þingi, en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var einnig 1. flm. þess. Það frv. var áþekkt hinu fyrra nema að lagt var til að forsrh. legði fram tillögu um dómara og aukinn meiri hluta eða tvo þriðju hluta atkvæða þyrfti á þinginu. Frv. var ekki afgreitt og hefur nú verið lagt fram aftur.

Annað frv. liggur líka fyrir hinu háa Alþingi frá vinstri grænum. Það frv. fjallar um sambærilegt efni. 1. flm. er hv. þm. Ögmundur Jónasson en hann hefur einmitt sett fram sín sjónarmið í umræðum hér fyrr á fundinum.

Með dómstólalögunum, nr. 15/1998, var gildi umsagnar Hæstaréttar um umsækjendur um dómaraembætti breytt. Útilokað er nú samkvæmt lögunum að skipa umsækjanda í dómaraembætti ef Hæstiréttur lætur í ljós að hann fullnægi ekki tilteknum hæfisskilyrðum en þau skilyrði varða mannorð umsækjenda og hæfni til að gegna starfinu. Samkvæmt lögunum verður umsækjandi að fullnægja því skilyrði að vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar. Hæstiréttur metur þetta og skilar ráðherra umsögn.

Sú breyting sem gerð var á dómstólalögunum veitir því meira aðhald að dómsmrh. á hverjum tíma en eldri skipan. Engan er hægt að skipa í réttinn nema hann sé faglega hæfur að mati Hæstaréttar. Ég endurtek: Engan er hægt að skipa í réttinn nema hann sé faglega hæfur að mati Hæstaréttar. Staðan er því nokkuð breytt frá því að þeir fyrrv. hv. þm. Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti lýðveldisins, lögðu fram frv. sitt árið 1993.

Ef við lítum til Norðurlanda þá eru hæstaréttardómarar í Noregi og Danmörk skipaðir með sambærilegum hætti og á Íslandi. Konungurinn skipar formlega en samkvæmt tillögu og á ábyrgð dómsmrh. Í Svíþjóð velur hins vegar ríkisstjórnin og skipar dómara æðsta dómstólsins. Vinstri menn eru því að leggja til, eða hv. þingmenn Samfylkingarinnar í þessu tilviki, að annar háttur verði hafður á hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og í þeim réttarkerfum sem eru líkust okkar og við viljum viðhalda þeirri réttareiningu sem ríkt hefur síðustu áratugi ef ekki aldir.

Ef við lítum til Bandaríkjanna þá leggur forsetinn tilnefningu sína um dómara fyrir öldungadeild þingsins. Þar með er valið gert pólitískt. Í Bandaríkjunum er mikið fjallað um skoðanir dómaraefnis en minna um faglega hæfni. Afstaða dómaraefnanna til einstakra mála svo sem fóstureyðinga, dauðarefsinga o.s.frv. er í brennidepli. Yrði skipun dómara tekin fyrir á Alþingi yrði skipunin væntanlega æ pólitískari og rétturinn þar með umdeildari.

Þess er skemmst að minnast hversu harðar persónulegar árásir dundu á þeim sem hafa verið tilnefndir til dómara af Bandaríkjaforseta og ástæða er til þess að velta því fyrir sér hvort slík tilhögun mundi laða hæfileikafólk til þessara mikilvægu starfa. Einnig ber að líta til þess að skipanir í opinberar stöður eru almennt með nokkuð öðrum hætti í Bandaríkjunum en á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum og öðrum ríkjum sem búa við svipaða réttarhefð. Í Bandaríkjunum tíðkast mjög að kosið sé til embætta sem gerir þau mun pólitískari um leið. Má þar nefna t.d. lögreglustjóra- og saksóknarembætti.

Í frv. er lagt til að sérnefnd Alþingis fjalli um hæfni umsækjenda og skili skýrslu til þingsins. Ekki verður séð í fljótu bragði hvaða tilgangi slík umfjöllun á að þjóna. Ljóst er að þingmenn eru ekki sérfræðingar í lögfræði og hafa því engar sérstakar forsendur til að leggja mat á umsækjendur, a.m.k. hvað það svið snertir.

Tillögurnar í frv. gera ráð fyrir auknum meiri hluta á Alþingi og að það verði tveir þriðju hlutar hv. þm. sem mæli fyrir tillögu um skipun hæstaréttardómara, en það eru fá fordæmi um slíka meðferð mála á Alþingi. Ókostirnir við slíkt fyrirkomulag eru margvíslegir. Ég leyfi mér að efast um að það finnist nokkurs staðar í sambærilegum réttarkerfum, a.m.k. man ég ekki til þess.

Líka má velta því fyrir sér hvort þetta fyrirkomulag gæti skapað mikla réttaróvissu, jafnvel gert Hæstarétt óstarfhæfan, án þess að einstakir þingmenn beri nokkra ábyrgð á því ástandi sem þeir skapa. Dómsmrh. hefur hins vegar samkvæmt gildandi lögum ekki aðeins rétt til að standa að skipun dómara heldur ber honum einnig skylda til þess að viðlagðri embættisábyrgð.

Frv. á að sögn að tryggja jafnræði milli valdaþátta ríkisvaldsins eins og skilja má af greinargerð með því.

Til þess ber hins vegar að líta að ráðherra á hverjum tíma situr í skjóli þingræðis, þ.e. meiri hluta þingsins á hverjum tíma. Missi hann traust meiri hluta þingsins ber honum að víkja. Skipun hæstaréttardómara fer því í dag fram á grundvelli þingræðisins þótt pólitísk umræða fari ekki fram í þingsölum um hverja skipun. Því er ekki hægt að stilla málum svo upp að þingið sé áhrifalaust eða gildandi reglur séu úr takti við þrígreiningu ríkisvaldsins.

Herra forseti. Mér þótti rétt að gera hér stuttlega grein fyrir ákveðnum sjónarmiðum og lýsa skipun þessara mála í ýmsum öðrum löndum. En frv. fær síðan eðlilega umfjöllun á hinu háa Alþingi.