Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:22:02 (6288)

2001-04-03 17:22:02# 126. lþ. 104.28 fundur 432. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Daníel Árnasyni fyrir góðar undirtektir við málið. Ég held, eins og fram kom í máli hans, að æ fleiri séu að gera sér grein fyrir því að við höfum sofið á verðinum varðandi endurskipulagningu af þessu tagi. Hverjum hefði dottið í hug fyrir eins og 18 mánuðum að flugi yrði hætt á Húsavík? Hverjum hefði dottið í hug fyrir nokkrum árum að flugi yrði hætt á Raufarhöfn og Kópasker?

Það er hlutverk okkar að sjá til þess að með breyttum tímum og öðruvísi samgöngumöguleikum sé tekið á slíkum málum. Við erum að horfa fram á það að hingað til lands komi á allra næstu árum u.þ.b. milljón ferðamenn, þreföldun frá því sem nú er. Ef innra stoðkerfi landsins er ekki í lagi, og þar er samgöngukerfið náttúrlega stór hluti ásamt mörgu öðru, rafmagni, síma o.s.frv., þá eru engir möguleikar til þess að gefa ferðamönnum kost á þeirri dreifingu sem nauðsynleg er til þess að landið hafi þær tekjur sem efni standa til, þannig að út frá ferðamennskunni er þetta stórmál. Við vitum öll að ferðamennskan orðin önnur stærsta atvinnugrein okkar. Og það er svo augljóst að ef ekki er möguleiki á því að ferðast um landið á nútímalegan hátt í almenningssamgöngukerfi þá er það stór afturför, sérstaklega vegna ástandsins í flugmálunum þar sem þróunin hefur orðið bara á einn veg en var fyrir séð.

Þessi tillaga er fram komin af minni hálfu vegna þess að ég sem stjórnarformaður í Ferðamálamiðstöð Eyjafjarðar þóttist geta séð það nákvæmlega fyrir hvernig þróun þessara mála yrði, t.d. í samabndi við flugið, og vakti máls á því fyrir mörgum árum að taka þyrfti á þessum málum í þeim dúr sem hér er lagt til og það hefði betur verið gert fyrr, þ.e. tveimur árum fyrr. Þá hefðu menn verið í allt annarri stöðu varðandi þessi mál.

Að síðustu, þökk fyrir góðar undirtektir, virðulegi forseti, og ég læt máli mínu lokið.