Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:19:36 (6375)

2001-04-05 11:19:36# 126. lþ. 107.8 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel lítinn tilgang í því að rifja upp þær deilur sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum þegar við vorum að ræða hinn upphaflega samning. Það var þá staðföst skoðun mín og er enn að Norðmenn hafi fengið allt of stóran hlut af þessum stofni miðað við það hversu stór hlutur þeirra í að drepa hann niður á sínum tíma var. Um það ætla ég ekki að deila við hæstv. utanrrh.

Hins vegar slefuðumst við til þess á sínum tíma að leggjast ekki í harkalegri víking en við gerðum gegn samningnum vegna þess að þar var inni ákveðið endurskoðunarákvæði. Það byggði á því að þegar stofninn næði aftur fyrri stærð yrði samið upp á nýtt og þá gætum við gert frekara tilkall til stærri hlutar úr stofninum þegar sýnt væri að stofninn væri sökum aukinnar stærðar tekinn að ganga aftur inn í hin íslensku hafsvæði. Það hefur gerst á síðustu árum að stundum hafa komið göngur inn í íslensku efnahagslögsöguna af stórri fullþroska síld. Því miður er ekki við því að búast að svo verði að verulegu marki fyrr en stofninn byggist upp. En þessi niðurstaða hér gengur í þveröfuga átt. Það er ekki verið að fara eftir niðurstöðu vísindamanna. Það er verið að fara eftir einhverju öðru.

En gott og vel. Ég skil það líka að hæstv. ráðherra hafi í ljósi aðstæðna fallist á þetta og ég geri engar sérstakar athugasemdir við það. Ég var hins vegar að inna ráðherrann, meira fyrir forvitnissakir heldur en af pólitískum ástæðum, eftir því hvað vísindamenn sem véla um þetta hafa sagt um uppbyggingu stofnsins. Eru einhverjar líkur til þess að hægt sé að ætla að á næstu árum stækki stofninn umtalsvert? Hann var, ef ég man rétt, það stór fyrir örfáum árum að heimilt var að veiða 1.200 þús. lestir. Við erum komin niður í 800, ráðlegt væru 750 þús. þannig að þetta bendir til þess að hann sé frekar á hraðri niðurleið. Er þess að vænta að hann rísi upp aftur eins og fuglinn Fönix?