Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:51:38 (6382)

2001-04-05 11:51:38# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess sérstaklega í minni stuttu ræðu hérna áðan að neytendalán væru undanskilin, ég gerði mér grein fyrir því.

Í hvaða tilvikum, herra forseti, telur hæstv. utanrrh. að dráttarvextir gætu lækkað? Ég er þeirrar skoðunar að það sé rangt hjá honum, hafi ég skilið hann rétt, að við lifum í opnu samfélagi og opnari en áður sem gerir það að verkum að fyrirtæki geti þá sótt fjármagn í auknum mæli á annan markað og þess vegna ríki sérstök samkeppni sem mundi koma fram í því að dráttarvextir yrðu ekki óhóflega háir.

Ég held það sé rangt hjá hæstv. utanrrh. að því er varðar þessi litlu fyrirtæki. Ég vísa til þess að skammt er síðan að Samtök iðnaðarins héldu fund þar sem forvígismaður þeirra gat þess einmitt að lítil og meðalstór fyrirtæki nytu ekki þessara opnu vaxtakjara, þ.e. vaxtakjara á hinum alþjóðlega markaði, þau yrðu að sækja sér fjármagn innan lands.

Ég held því fram, herra forseti, að verið sé að opna á möguleika hér sem felur það í sér að lítil fyrirtæki sem þurfa að sækja sér fjármagn gætu lent í því að þurfa að greiða hærri dráttarvexti. Hvaða samningsstöðu hafa þau gagnvart bankastjóra sem segir: Ja, það er nú hart í ári og við höfum takmarkað fjármagn og það er óvíst með þróun efnahagslífsins. Til þess að tryggja bankann verðum við að fara þess á leit við þig að þú borgir tiltekið vanefndaálag. Það getur leitt til þess að ákveðin fyrirtæki sem geta ekki sótt annað lendi í því að greiða hærri dráttarvexti en ella.

Ég inni svo hæstv. starfandi viðskrh. eftir því í hvaða tilvikum hann telur líklegt að dráttarvextir munu sökum þessarar breytingar lækka. En hann fullyrti að í sumum tilvikum gæti það gerst.