Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:41:55 (6392)

2001-04-05 12:41:55# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að fólk hefði minni möguleika á að verðtryggja innlán og samt var hann að gagnrýna það í 14. gr. að heimilt sé að verðtryggja og heimilt sé að setja mörk á hversu lengi megi verðtryggja í staðinn fyrir að það sé skylda. Hann vill fá skírari reglur um að það eigi að takmarka verðtryggingu á innlánum. Það er einmitt málið. Það hefur ekki mátt verðtryggja innlán til skamms tíma.

Hv. þm. sagði líka að fólk þyrfti á vissu æviskeiði að taka lán. Vissulega. En það gæti líka sparað fyrir þann tíma. Ungt fólk á að geta sparað áður en það stofnar heimili og eldra fólk á að geta lagt fyrir þegar það er komið yfir þann hjalla. Það eru þessir íslensku sparifjáreigendur sem hv. þm. gefur lítið fyrir. Möl og ryð.

Sá sparnaður sem hann er að gagnrýna og hefur mikið á móti er uppistaðan í þjóðhagslegum sparnaði. Það er lánsféð sem við getum lánað. Það eru lífeyrissjóðirnir. Það er það lánsfé sem heldur öllu atvinnulífinu gangandi. Það eru þessir litlu sparifjáreigendur úti um allt, sem hv. þm. gefur ekki mikið fyrir. Guð hjálpi okkur ef hv. þm. skyldi nú vera málsvari síns flokks --- hann sagði reyndar ekki núna ,,við vinstri grænir`` --- og ef hv. þm. Karl V. Matthíasson er líka málsvari síns flokks og báðir þessir flokkar komast í ríkisstjórn og fara að véla með sparnað og fjármagn þjóðarinnar. Þá er hætt við því að þjóðin hætti í heild sinni að spara það litla sem hún hefur gert.