Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:35:51 (6429)

2001-04-05 15:35:51# 126. lþ. 107.12 fundur 523. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (verðtryggðar eignir og skuldir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þær reglur sem hæstv. utanrrh. las upp voru mjög nákvæmar en þær voru líka mjög rúmar. Ef ég væri í Fjármálaeftirlitinu mundi ég vilja hafa stífari reglur og ég teldi eðlilegt að bankarnir væru með stífari reglur um þessa áhættu. Ég veit til þess að í erlendum bönkum sem starfa í fjölda landa eru reglurnar þannig að þetta á allt að standast á innan mjög lítilla vikmarka, bæði dollaraeign og dollaraskuld, jenaeign og jenaskuld o.s.frv. Ég hygg því að slíkar reglur ofan frá geti verið skálkaskjól eða deyft menn í því að setja upp almennilegar reglur um að þessi áhætta sé í jafnvægi.

Ég tel að það sé hlutverk bankastjórnenda að hafa þá reglu í lagi að verðtryggð innlán og útlán standist á, ekki bara innan 30% marka og að dollaraeignir og dollaraskuldir standist á líka með gjaldmiðilssamningum og öðru slíku, það er hægt að koma þessu öllu fyrir í dag, enda er Fjármálaeftirlitinu það skylt samkvæmt núgildandi lögum. Það getur sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Þetta er allt saman til í dag. Með því að setja slíkar reglur ofan frá er verið að taka frá mönnum ábyrgðina og hvatann til þess að hafa þetta í lagi.