Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:42:36 (6431)

2001-04-05 15:42:36# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um móttöku flóttamannahópa og aðstoð við þá. Ég hef áður nefnt að ég hef ákveðnar efasemdir um móttöku Íslands á flóttamönnum.

Um heiminn eru milljónir, milljónatugir af fólki á flótta, margir af völdum stríða, aðrir af völdum hungurs og neyðar. Í eyðimörkum Súdans eigra börn í áratugi. Í borgum Suður-Ameríku eru flóttamenn í eigin landi, þar eru borgarbörnin flóttamenn í eigin landi. Ég fullyrði að 90% af þessu fólki er þeldökkt. Meginhluti er ólæs og ómenntaður með öllu.

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. hvernig á því standi að þeir flóttamenn sem koma til Íslands eru allir hvítir og allir læsir.