Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:44:01 (6432)

2001-04-05 15:44:01# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er Flóttamannastofnunin í Genf sem beinir til okkar ákveðnum flóttamannahópum, það er ákvörðun Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar hvaðan við tökum við gestum. Við gerum ekki pöntun, hvorki í hvíta né svarta, en Flóttamannastofnunin hefur beint til okkar fólki frá Balkanskaga, þ.e. frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Þar var mikil neyð, þar er mikið af fólki enn í flóttamannabúðum. Um helmingur þeirra flóttamanna sem hingað hafa komið eru frá Kraína-héraði, var rekinn þaðan af Króötum vegna þess að þetta var fólk í blönduðum hjónaböndum þar sem annar makinn var Serbi, hinn Króati.

Við tókum líka á móti hópi frá Kosovo þegar stríðið stóð þar yfir og það var fólk sem var nýkomið á flótta. Það hefur tekist afar vel hjá okkur að taka á móti þessu fólki og það kann að hafa einhver áhrif á það að Alþjóðaflóttamannastofnunin, sem hefur veitt okkur mikla viðurkenningu fyrir frammistöðuna í þessu verkefni, beinir til okkar þessum hópum.