Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:27:02 (6445)

2001-04-05 16:27:02# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., SoG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Soffía Gísladóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi koma að örstuttri athugasemd, sem mér fannst ekki hafa komið fram í dag, um frv. til laga um móttöku flóttamannahópa. Það er mjög jákvæð athugasemd. Það hefur vakið athygli utan landsteinanna hversu vel við höfum staðið að móttöku flóttamannahópa til Íslands, þá sérstaklega að stuðningi við þær fjölskyldur sem til landsins koma. Þá á ég við stuðningsfjölskyldurnar sem tekið hafa á móti erlendum fjölskyldum í hverju byggðarlagi fyrir sig.

Það hafa verið gerðar rannsóknir hjá Evrópusambandi félagsmálastjóra, hjá norrænu deildinni innan þess sambands. Félagsmálastjórar á Íslandi hafa verið erlendis, einkum félagsmálastjórinn á Dalvík, til að kynna sérstaklega þennan þátt móttökunnar, þ.e. hversu vel íslenskar fjölskyldur og almenningur tekur á móti flóttamönnum frá útlöndum.