Erfðaefnisskrá lögreglu

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:46:09 (6475)

2001-04-05 18:46:09# 126. lþ. 107.18 fundur 616. mál: #A erfðaefnisskrá lögreglu# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um erfðaefnisskrá lögreglu.

Með frv. er lagt til að komið verði á fót sérstakri lögregluskrá með upplýsingum um erfðaefni ákveðinna einstaklinga í þeim tilgangi að auðvelda lögreglu rannsókn alvarlegra sakamála.

Aðdragandi að frv. er að í byrjun árs 1999 var skipuð nefnd til að vinna að undirbúningi reglna um DNA-rannsóknir, nánar tiltekið um sýnatöku, skrásetningu sýna og vörslu þeirra í þágu rannsókna sakamála. Nefndin kannaði framkvæmd og reglusetningu á þessu sviði á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og Bretlandi, auk þess að leita upplýsinga hjá fagaðilum á þessu sviði. Þá hafði nefndin í störfum sínum einnig hliðsjón af tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins um DNA-rannsóknir í þágu opinberra mála. Nefndin skilaði skýrslu sinni í lok mars á síðasta ári og lagði til að hér á landi yrði hafin kerfisbundin skráning á upplýsingum um erfðaefni úr lífsýnum sem tekin hefðu verið í þágu rannsóknar opinberra mála. Við svo búið var hafist handa við að leggja drög að frv. því sem ég mæli hér fyrir. Frv. er einkum byggt á tillögum nefndarinnar, en einnig var við samningu þess höfð hliðsjón af dönskum lögum um sama efni.

Kostir skrár sem þessarar eru margvíslegir, en í því sambandi má t.d. nefna þann gríðarlega tímasparnað sem vinnst við rannsókn mála hjá lögreglu þar sem með einfaldri samanburðarrannsókn á erfðaefni sem finnst á brotavettvangi má annaðhvort tengja mann með skjótum hætti við afbrotið eða hreinsa hann strax af grun, sem er ekki síður mikilvægt. Þá er einnig vert að nefna að slík samanburðarrannsókn getur leitt til þess að mál upplýsist sem ella hefði aldrei upplýst.

Herra forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frv.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri haldi skrána, annist skráningu í hana og beri ábyrgð á henni í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Samkvæmt 2. gr. frv. er skránni skipt í tvo hluta, kennslaskrá og sporaskrá. Í kennslaskrá verður heimilt að skrá upplýsingar um þá einstaklinga sem hafa hlotið dóm fyrir alvarleg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, svo sem manndráp, alvarlegar líkamsmeiðingar, kynferðisbrot og alvarleg almannahættubrot.

Þá er einnig heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga sem framið hafa brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, en þessi atriði eru talin upp í 4. gr.

Í frv. eru heimildir til skráningar í kennslaskrá þröngar og er gengið skemur í þeim efnum en gert er víða í grannlöndum okkar.

Í sporaskrá verða skráðar upplýsingar um erfðaefni sem fengin eru úr lífsýnum á brotavettvangi eða finnast á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa. Upplýsingar sem skráðar verða í sporaskrá eru af öðrum meiði en þær sem skráðar verða í kennslaskrá, þ.e. aðeins er um að ræða upplýsingar sem finnast á vettvangi og hafa ekki verið tengdar ákveðinni persónu. Af þeim sökum eru rýmri heimildir til að skrá upplýsingar í sporaskrá en kennslaskrá.

Þær upplýsingar sem heimilt er að skrá í erfðaefnisskrána eru tæmandi taldar í 3. gr. frv. En þær eru: Nafn einstaklings, kennitala, heimilisfang og erfðagerð hans ásamt vísun til dóms eða málsnúmers óupplýsts sakamáls.

Þegar einstaklingur hefur verið skráður í erfðaefnisskrá kveður 6. gr. frv. á um að ríkislögreglustjóra beri að tilkynna honum skriflega um skráninguna. Gilda um þá tilkynningu almennar reglur stjórnsýsluréttarins og er ákvörðun um skráningu jafnframt kæranleg til æðra stjórnvalds.

Í 7. gr. frv. er fjallað um hvenær upplýsingar verða máðar úr skránni og gilda mismunandi reglur um sporaskrá og kennslaskrá. Úr kennslaskrá verða upplýsingar máðar eigi síðar en tveimur árum eftir andlát hins skráða. Ef skráður einstaklingur hefur verið sýknaður eftir endurupptöku máls verða upplýsingar máðar út eftir að sýknudómur gengur. Þá verða upplýsingar máðar úr skránni ef í ljós kemur að skráðar upplýsingar hafa verið rangar eða skráðar án tilskilinnar heimildar.

Úr sporaskrá verða upplýsingar máðar þegar kennsl hafa verið borin á skráðar upplýsingar eða við fyrningu brots þess sem um ræðir.

Til að tryggja öryggi erfðaefnisskrárinnar hefur ríkislögreglustjóri einn aðgang að henni samkvæmt 1. gr. frv. Nauðsynlegt er þó að ákveðin yfirvöld geti fengið upplýsingar úr skránni í nánar greindum tilvikum.

Í 8. gr. frv. er því gert ráð fyrir að lögreglustjórum, ríkissaksóknara, dómsmrn., erlendum dómstólum og dómsmálayfirvöldum og rannsóknarstofu sem annast greiningu erfðaefnis samkvæmt þjónustusamningi við dómsmrn. verði veittur aðgangur að upplýsingum úr skránni eftir beiðni þar um.

Upplýsingar um erfðaefni einstaklinga eru í eðli sínu mjög viðkvæmar persónuupplýsingar og til að tryggja enn frekar öryggi erfðaefnisskrárinnar er Persónuvernd í 9. gr. frv. falið sérstakt eftirlitshlutverk með skránni. Það eftirlit er til viðbótar því eftirliti sem ríkislögreglustjóri fer með sem ábyrgðaraðili skrárinnar.

Eftirlit Persónuverndar felst annars vegar í að gæta þess að skráning og meðferð upplýsinga sé í samræmi við ákvæði frv. þessa og annarra lagaákvæða sem kveða á um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og hins vegar að tryggja að óviðkomandi fái ekki aðgang að henni eða geti haft áhrif á skráningu upplýsinga í hana.

Ég legg ríka áherslu á að einungis með því að gæta ýtrasta öryggis skrárinnar og þeirra upplýsinga sem í hana eru skráðar er hægt að tryggja að hún geti þjónað hlutverki sínu sem hjálpartæki lögreglu við að upplýsa alvarleg sakamál. Hefur þessa í hvívetna verið gætt við smíð frv.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.