Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:32:30 (6490)

2001-04-05 19:32:30# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:32]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hefði skilið þessar athugasemdir hv. þm. Péturs Blöndals ef við værum að banna einhverja athöfn sem snerist gegn eigin hegðun og eigin persónu. En við erum að huga að öryggi annarra og það er lykilatriðið í málinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal bendir á setningu í greinargerðinni þar sem segir að ýmsar rannsóknir hafi bent til þess að slysum mundi fækka við setningu svona laga. Það er alveg hárrétt. Ég man til að mynda eftir einni frá Þýskalandi þar sem sagt var að áhættustuðullinn væri 70 hjá þeim sem keyra og tala í síma á hinn hefðbundna hátt enn stuðullinn lækkar niður í 27 með handfrjálsum búnaði. Með þessum lögum færi stuðullinn ekki niður í 2 eða 3 eins og ef við mundum banna alla símnotkun í akstri. Eftir slíka lækkun, þ.e. eftir að hættumörkin hafa lækkað úr 70 niður í 27, situr enn eftir þessi mikla áhætta, sem er alveg fullkomlega rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að velja númerið. Þess vegna er enn áhætta við að tala í síma undir stýri. Það er alveg hárrétt. Við verðum að gera fólki grein fyrir því að það er áhætta að keyra og tala í síma en hún minnkar verulega ef fólk notar handfrjálsan búnað.